Segja Bandaríkin hafa stöðvað neyðarfund Öryggisráðsins

Skotflaugum skotið að Ísrael frá Gaza.
Skotflaugum skotið að Ísrael frá Gaza. AFP

Bandaríkin hafa komið í veg fyrir neyðarfund Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem fram átti að fara á föstudag vegna átaka á milli Ísraela og Palestínumanna. 

„Það verður enginn öryggisráðsfundur á morgun,“ sagði talsmaður sendinefndar Kína hjá Sameinuðu þjóðunum. 

„Bandaríkin samþykktu ekki að funda með fjarfundabúnaði á morgun,“ sagði annar diplómati. Hann segir að Bandaríkin vilji að fundurinn fari fram á þriðjudag, en slíkt myndi draga verulega úr þeirri meiningu að fundurinn sé aðkallandi. 

Samþykki allra fimmtán aðildarríkja öryggisráðsins þarf fyrir slíka fjarfundi. 

Bandaríkin gáfu í vikunni út yfirlýsingu þar sem fram kom að Ísrael ætti rétt á að verja sig gegn skotflaugarárásum, sem hryðjuverkasamtökin Hamas hafa staðið fyrir frá Gaza-svæðinu. Bandaríkin kölluðu einnig eftir því að báðir aðilar létu af ofbeldinu. 

Í dag hefur ísraelski herinn sent aukinn fjölda hermanna að landamærum Gaza. Hið minnsta 83 hafa látist á Gaza-svæðinu, þeirra á meðal 17 börn, frá því á mánudag. Hið minnsta 480 hafa særst.

Sjö Ísraelsmenn hafa látist í átökunum, meðal annars sex ára barn. 

mbl.is