Norðmenn hætta alfarið með AstraZeneca

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. AFP

Stjórnvöld í Noregi hafa ákveðið að hætta alfarið notkun á bóluefni AstraZeneca gegn kórónuveirunni. Tímabundið hlé hafði verið gert á notkun þess 11. mars vegna hugsanlegra orsakatengsla milli notkunar þess og sjaldgæfrar aukaverkunar, blóðtappa.

Erna Solberg forsætisráðherra tilkynnti á blaðamannafundi á miðvikudag, að bóluefnið yrði nú tekið út úr bólusetningaráætlun landsins og feta Norðmenn þannig í fótspor Dana.

Ekki liggur fyrir hvað gert verður við þá skammta sem Norðmenn eiga á lager, en þeir skipta hundruðum þúsunda. Talið er að þeim verði annaðhvort skilað til Evrópusambandsins til endurdreifingar eða komið til alþjóðlega bóluefnasamstarfsins, COVAX.

Í síðasta mánuði var greint frá því að Norðmenn hefðu „lánað“ Íslendingum 16.000 skammta af bóluefni AstraZeneca, og eru þeir skammtar komnir til landsins.

Dagblaðið Verdens Gang greindi frá því á mánudag að 29 manns í Noregi hefðu sóst eftir skaðabótum frá norska ríkinu vegna aukaverkana af völdum bóluefna gegn kórónuveirunni. Spanna þær allt frá höfuðverk til blóðtappa og andláts. Í fjórum tilfellum er sóst eftir skaðabótum vegna andláts, en einn þeirra sem um ræðir fékk bóluefni AstraZeneca.

mbl.is

Bloggað um fréttina