Rannsaka dauða 18 fíla á Indlandi

Dýralæknar kanna hræ dauðu fílanna í Indlandi.
Dýralæknar kanna hræ dauðu fílanna í Indlandi. AFP

Yfirvöld á Indlandi hafa hafið rannsókn á dauða í það minnsta átján fíla. Náttúruverndarsinnar hafa dregið í efa útskýringar á dauða þeirra þar sem haldið hefur verið fram að þeir hafi orðið fyrir eldingu.

Hjörð fíla fannst öll dauð í hlíðum Kandali, í skógi vöxnu verndarsvæði í norðausturhluta Indlands, í Assam-ríki í gær. 

Umsjónarmenn á verndarsvæðinu og stjórnmálamaður sögðu við fréttastofu AFP að þeir teldu hjörðina hafa orðið fyrir eldingu. 

Minnst átján fílar fundust dauðir.
Minnst átján fílar fundust dauðir. AFP

Náttúruverndarsinninn Soumyadeep Datta, frá samtökunum Nature's Beckon, sagði útskýringuna ólíklega út frá myndum sem birtar voru á samfélagsmiðlum af fílunum.

Hann telur eitrun líklegri orsök dauða fílanna og bíður niðurstöðu krufningar sem verður framkvæmd af yfirvöldum verndarsvæðisins. Dýralæknar og embættismenn lögðu af stað á vettvang í morgun ásamt Parimal Shuklabaidya, skógar- og umhverfisráðherra Indlands. 

Stofn fíla á Indlandi er talinn vera nærri þrjátíu þúsund dýr, um 60 prósent af stofni villtra asíufíla í heiminum. Undanfarin ár hefur drápum á fílum meðal heimamanna fjölgað sem og dauðsföllum manna af völdum fíla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert