Fundaði með leiðtogum Ísrael og Palestínu

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti ræddi í dag við Mahmud Abbas forseta Palestínu í fyrsta sinn síðan sá fyrrnefndi tók við embætti. Átök milli ísraelska hersins og vígasveita Hamas hafa farið stigvaxandi síðustu daga og er ástandið sérlega slæmt á Gaza-svæðinu í kjölfar loftárása. 

Nabil Abu Rudeina, talsmaður Abbas, segir að fundurinn hafi verið „mikilvægur“. Hann tjáði sig þó ekkert um efni fundarins. 

Sprengja ísraelska hersins jafnaði í dag við jörðu byggingu á Gaza sem hýsti meðal annars fjölmiðlamenn á vegum Al Jazeera og AP fréttaveitunnar. Byggingin var rýmd í tæka tíð og sakaði engan. 

Biden fundaði einnig með Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael í dag. Á fundinum fullvissaði Netanyahu Biden um það að allt væri gert til þess að tryggja öryggi óbreyttra borgara. 

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun funda um ástandið á sunnudag. Fundurinn átti upphaflega að fara fram á föstudag, en Bandaríkin komu í veg fyrir það þar sem samþykki allra 15 aðildarríkja þurfti svo að fundurinn yrði haldinn. 

mbl.is