„Ef þú ert ekki bólusettur, þá ertu ekki öruggur“

Rochelle Walensky, yfirmaður bandarísku Sóttvarnastofnunarinnar.
Rochelle Walensky, yfirmaður bandarísku Sóttvarnastofnunarinnar. AFP

Yfirmaður Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC) sagði í dag að einungis óbólusettum einstaklingum stafi hætta af því að nota ekki andlitsgrímur. 

Stofnun tilkynnti á fimmtudag að fullbólusettir Bandaríkjamenn geti hætt að nota grímur og gæta að fjarlægðarmörkum við flest tilefni. 

„Ef þú ert bólusettur, þá erum við að segja þér að þú sért öruggur, þú getur tekið af þér grímuna og það er ekki hætta á því að þú verðir alvarlega veikur eða þurfir að fara á sjúkrahús vegna Covid-19,“ sagði Rochelle O. Walensky við Fox-fréttastöðina á sunnudag.

„Ef þú ert ekki bólusettur, þá ertu ekki öruggur. Vinsamlegast farðu og láttu bólusetja þig eða haltu áfram að nota grímu,“ sagði Walensky. 

Í viðtalinu sagði Walensky að ný stefna Sóttvarnastofnunarinnar sé að hver einstaklingur taki eigin ákvarðanir. Hún sagði einnig að í þeim samfélögum þar sem smittíðni sé há væri ráðlagt að halda grímunotkun áfram. Það eigi einnig við börn yngri en 12 ára og þá sem eru með veikt ónæmiskerfi. 

Frétt New York Times. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert