Hið minnsta tveir létust þegar sætaraðir hrundu

Slasaður maður er fluttur af vettvangi til aðhlynningar.
Slasaður maður er fluttur af vettvangi til aðhlynningar. AFP

Hið minnsta tveir létust þegar upphækkuð sæti í hálfbyggðri sýnagógu hrundu skammt frá Jerúsalem. 

BBC greinir frá því að hátt í 650 rétttrúnaðargyðingar hafi verið í sýnagógunni í Givat Zeev, hernumdu svæði á Vesturbakkanum. Hópurinn var saman kominn til þess að fagna upphafi Shavuot-hátíðarinnar. 

Fáeinar vikur eru síðan 45 krömdust til bana á hátíð rétttrúnaðargyðinga í Mount Meron í norðurhluta Ísrael. 

Talið er að um 60 hafi slasast í Givat Zeev í dag. Þar af eru tíu þungt haldnir. 

Myndskeið af atvikinu sýna hóp fólks syngja og dansa áður en sætaraðirnar gefa sig. 

Doron Turgeman, yfirlögregluþjónn í Jerúsalem, segir að einhverjir eigi eftir að verða handteknir vegna atviksins, en öryggis í byggingunni var ekki gætt og viðburðurinn var haldinn þrátt fyrir að tilskilin leyfi hafi ekki fengist. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert