Kettir ryðja götur í Chicago

Chicago.
Chicago. AFP

Rottur eru stórvandamál sem vaxið hefur hratt í Chicago en nú hafa yfirvöld snúið vörn í sókn. Þúsund villikettir hafa verið sendir út á götur borgarinnar og fyrir að ráða niðurlögum rottanna er þeim umbunað með fæðu og skjóli.

Þessar nýju „herdeildir“ gatnanna í Chicago voru fengnar að láni hjá samtökum sem skotið hafa yfir flækingsketti skjólshúsi, Tree House Humane Society. Kettirnir hafa mikinn fælingarmátt og geta hreinsað nagdýrin af stórum svæðum. Þeir ráða rotturnar af dögum á nýjum umráðasvæðum sínum, en eftir það dugar lyktarhormón kattanna, ferómón, til að halda þeim víðs fjarri, segir Sarah Liss, yfirmaður kattaskýlisins, við sjónvarpsstöðina WGN9.

Á heimasíðu Tree House segir að kettirnir séu fluttir tveir og þrír saman hverju sinni í umhverfi íbúða eða fyrirtækja og sleppt þar til höfuðs rottunum. Ráðast þeir á vandann á „vistvænan hátt“. Eigendur íbúðarhúsa, bygginga eða fyrirtækja leggja þeim oft til matarbita, drykkjarvatn og skjól. Þykir þeim gott af köttunum að vita.

Og sú mun raunin í mörgu tilfelli að vinnukettirnir geri sig heimakomna við vinnustað sinn og verði á endanum „hugumkærir“ liðsmenn heimilisins. Sumir hafa meira að segja náð það langt að eiga eigin síður á samfélagsmiðlinum Instagram. „Þetta eru villikettir sem gætu ekki þrifist inni á heimili eða í kattaskjóli. Með því að setja þá til starfa í „vinnukatta“-nýlendum sjáum við til þess að þeir njóta lífsins sem aldrei fyrr,“ segir á síðunni. agas@mbl.is

mbl.is