43% vilja að Ólympíuleikunum verði aflýst

Yfir 80 prósent Japana segjast á móti því að Ólympíuleikarnir, sem frestað var í fyrra vegna Kórónuveirufaraldursins, séu haldnir í ár, samkvæmt könnun sem birt var síðastliðinn mánudag af japanska dagblaðinu Asahi Shimbun.

Aðeins eru tæpar 10 vikur þar til leikarnir eiga að fara fram í Tókýó. Könnunin var birt aðeins nokkrum dögum eftir að lýst var yfir neyðarástandi í Japan vegna kórónuveirufaraldursins, þar sem þjóðin tekst nú á við fjórðu bylgju Covid-19-smita.

Fyrir miðju má sjá forsætisráðherra Japans, Yoshihide Suga, vinstra megin …
Fyrir miðju má sjá forsætisráðherra Japans, Yoshihide Suga, vinstra megin heilbrigðis-, atvinnu- og félagsmálaráðherrann Norihisa Tamura og hægra megin talsmann ríkisstjórnarinnar, Katsunobu Kato. AFP

Samkvæmt könnuninni vilja 43 prósent þátttakenda að leikunum verði aflýst og 40 prósent að þeim verði frestað. Aðeins 14 prósent þátttakenda eru á því að leikarnir ættu að fara fram á tilætluðum tíma. Þessar tölur ættu þó ekki að koma á óvart, þar sem niðurstöður fyrri kannana hafa sýnt töluverða óánægju yfir leikunum meðal Japana mánuðum saman.

Skipuleggjendur Ólympíuleikanna hafa gefið út að strangar sóttvarnareglur muni tryggja að leikarnir geti farið fram með öruggum hætti. Má þar nefna reglulegar skimanir þátttakenda leikanna og bann við alþjóðlegum áhorfendum. Spurður um niðurstöðurnar segir talsmaður ríkisstjórnar Japans, Katsunobu Kato, að ríkisstjórnin muni „sjá til þess að japanska þjóðin skilji að leikarnir í Tókýó muni fara fram með öruggum hætti“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert