Banna ferðir á Everest

AFP

Kínversk yfirvöld hafa lagt bann við tilraunum til að ganga á Everest en yfirvöld í Nepal hafa ekki bannað ferðir á hæsta tind heims. Flestir sem gera tilraun til að komast á tind Everest fara Nepal-megin. Tveir Íslendingar eru lagðir af stað í lokaáfangann. 

Fjall­göngu­menn­irn­ir Heim­ir Fann­ar Hall­gríms­son og Sig­urður Bjarni Sveins­son lögðu af stað í síðasta hluta leiðarinnar í gær en þeir stefna að því að ná á toppinn 21. til 23. maí.

Khumbu-jökull.
Khumbu-jökull. AFP

Ástæðan fyrir ákvörðun kínverskra yfirvalda er sú að kórónuveiran geisar nánast stjórnlaust í nágrannaríkinu og óttast Kínverjar að veiran geti komist inn fyrir landamæri Kína með fjallgöngumönnum á Everest. Covid-19 greindist fyrst í kínversku borginni Wuhan undir lok árs 2019 en snemma árs 2020 tókst Kínverjum að koma böndum yfir farsóttina með hörðum sóttvarnareglum. Landamæri Kína hafa verið lokuð frá því í mars 2020 en nú óttast kínversk yfirvöld að landamærin við Nepal í 8.848 metra hæð geti komið veirunni inn í landið að nýju.

Undanfarnar vikur hafa Everest-farar veikst af Covid-19 í grunnbúðum Nepal-megin og því tilkynntu kínversk stjórnvöld um tímabundið bann við ferðum á Everest. Í síðustu viku greindu þau frá því að óheimilt yrði að fara yfir landamærin á toppnum, það er þeir sem þangað næðu Nepal-megin mættu ekki fara yfir til Kína á Everest, og öfugt. Ekki fylgdi með hvernig kínversk yfirvöld ætluðu að tryggja að farið yrði að þessum reglum enda tindurinn ekki stór og fáir sem geta staðið þar á sama tíma.  

mbl.is