Stöðvuðu leyfislausa 17. maí-skrúðgöngu

Norska konungsfjölskyldan fagnar þjóðhátíðardeginum.
Norska konungsfjölskyldan fagnar þjóðhátíðardeginum. AFP

Lögreglan í Ósló stöðvaði um 150 manns sem tóku þátt í ólöglegri 17. maí-skrúðgöngu í borginni. Tilgangurinn með athæfinu, samkvæmt Verdens Gang, var að mótmæla samkomutakmörkunum þar í landi sem meina Norðmönnum að fagna þjóðhátíðardeginum með hefðbundnum hætti.  

Þátttakendur skrúðgöngunnar komu saman í miðbæ Óslóar og ætluðu sér að marsera að konungshöllinni. Lögreglan stöðvaði skrúðgönguna á leið sinni og snéru þá þátttakendur göngunnar við og stefndu á Egertorgið.

Einn göngumönnum var sjónvarpsmaðurinn Svein Østvik, eða „Charter-Svein“ eins og hann er þekktur meðal Norðmanna. Í viðtali við VG segist hann hafa tekið þátt í skrúðgöngunni til þess að fagna frelsinu og að þetta sé óaðskiljanlegur hluti af því að fagna þjóðhátíðardeginum.

„Ja vi elsker dette landet“

Kórónaveiran hefur haft mikil áhrif á hátíðahöld Norðmanna en meðal annars var hætt við að halda skrúðgöngur barnanna, eða barnetoget, annað árið í röð. Hins vegar hafa nokkrir ráðgóð ungmenni skipulagt stafræna skrúðgöngu í tölvuleiknum Minecraft á norska netþjóninum Skogliv.

Þar geta Norðmenn spókað sig um meðal endurgerða af norskum kennileitum og byggingum, þar á meðal konungshöllinni og Níðarósdómkirkjunni í Þrándheimi.

Fagnaðarlæti útskriftarnema úr norskum framhaldsskólum komu mikið við sögu í dagbókum lögreglu víðs vegar um Noreg í nótt. Meðal annars söfnuðust saman 200 nemar í Vigelandsgarðinum í Osló. Lögreglunni leist ekki vel á atferli nemanna en að sögn Aftenposten kom setning „Ekki nóg áhersla á sóttvarnir“ mjög oft fyrir í skýrslum hennar.

Langar raðir mynduðust fyrir utan áfengisverslanir norska ríkisins fyrir helgina en nýtt met var slegið í áfengissölu hennar á einum degi þegar yfir milljón lítrar af áfengi voru seldir á föstudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert