Biden styður vopnahlé

AFP

Forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, hefur tjáð forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, að Bandaríkin ynnu að því með Egyptum og fleiri ríkjum að reyna að koma á vopnahléi. Samt sem áður hafa Bandaríkin komið í veg fyrir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gefi út yfirlýsingu þar sem farið er fram á það við stríðandi fylkingar að þær geri hlé á átökum. 

Í átta daga hafa Ísraelar og Palestínumenn skipst á eldflaugum og yfir 200 hafa látist. Langflestir þeirra eru íbúar á Gaza. Ísraelar héldu loftárásum sínum á Gaza áfram í nótt. Her Ísraela segir að tugum eldflauga hafi verið skotið á ísraelskt landssvæði í gærkvöldi frá Gaza.

Samkvæmt frétt BBC eru að minnsta kosti 212 látnir, þar af tæplega 100 konur og börn, í loftárásum Ísraela á Gaza. Í Ísrael eru tíu, þar af tvö börn, látnir. 

Í gærkvöldi sögðu Ísraelsmenn að 150 vígamenn hið minnsta séu meðal látinna á Gaza. Hamas-hreyfingin, sem er við stjórnvölinn á svæðinu, hefur ekki gefið upp hversu margir úr vopnuðum sveitum hreyfingarinnar hafi látist í árásum Ísraela. 

Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu í gær kemur fram að Biden hafi skorað á Ísrael að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að tryggja öryggi saklausra almennra borgara. 

mbl.is