Egyptaland ætlar að aðstoða við endurbyggingu Gaza

Abdel Fattah al-Sisi, forseti Egyptalands.
Abdel Fattah al-Sisi, forseti Egyptalands. AFP

Forseti Egyptalands, Abdel Fattah al-Sisi, hefur lýst því yfir að Egyptaland muni veita 500 milljónum Bandaríkjadala, sem jafngildir rúmum 63 milljörðum íslenskra króna, í endurbyggingu Gaza-svæðisins í kjölfar loftárása Ísraels á svæðið sem staðið hafa yfir síðastliðna rúma viku.

Egyptaland, sem á landamæri að Gaza svæðinu, hefur verið í hlutverki málamiðlara í átökunum á milli ísraelska hersins og vígasveita Hamas og sóst eftir því að koma á vopnahléi. al-Sisi er nú staddur í París á fundi Emmanuel Macron Frakklandsforseta og Abdullah, konungs Jórdaníu, þar sem möguleikinn á vopnahléi er ræddur.

Egyptaland hefur þegar sent 65 tonn af hjálpargögnum á Gaza-svæðið samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti landsins. Þar á meðal eru öndunarvélar, súrefniskútar og sprautur.

Opna landamæri sín að Gaza

Þá hefur Egyptaland opnað landamæri sín sem liggja að Gaza til að greiða fyrir flutningi slasaðra Palestínumanna á egypska spítala og til að koma hjálpargögnum á svæðið. Gríðarlegt álag er á spítölum innan Gaza svæðisins.

Ísrael hefur staðið fyrir loftárásum á Gaza-svæðið frá 10. maí í kjölfar eldflaugaárása þaðan á Ísrael. 213 manns hafa látið lífið á Gaza, þar af 61 börn, og fleiri en 1,400 manns hafa slasast. Sameinuðu þjóðirnar telja að 40 þúsund íbúar Gaza séu á flótta vegna átakanna og 2,500 manns hafi misst heimili sín. Að minnsta kosti tíu manns hafa látið lífið í Ísrael vegna átakanna.

mbl.is