Leita að horfinni stúlku í kjallara kaffihúss

Lögreglan rannsakar málið.
Lögreglan rannsakar málið. Ljósmynd/Wikipedia.org

Enska lögreglan ætlar að hefja uppgröft í tengslum við leit að unglingi sem hvarf fyrir löngu síðan og var hugsanlega fórnarlamb eins alræmdasta raðmorðingja landsins.

Rannsókn er hafin á kaffihúsi í borginni Gloucester á vesturhluta Englands eftir að lögreglan fékk upplýsingar um að staðurinn tengist mögulega hvarfi Mary Bastholm, 15 ára unglingsstúlku, sem síðast sást í janúar árið 1968.

Fred West framdi sjálfsvíg í fangelsi árið 1995 er hann beið eftir réttarhöldum. Hann var sakaður um 12 morð, þar á meðal á 16 ára dóttur sinni og átta ára stjúpdóttur. Hann er sagður hafa játað í samtali við son sinn að hafa myrt Bastholm.

67 ára eiginkona hans, Rosemary, afplánar lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn fyrir tíu morðanna.

Fundu blátt fataefni

Jarðneskar leifar fórnarlamba þeirra, sem mörg hver höfðu verið pyntuð og haldið í kynlífsánauð, fundust árið 1994 í garði, kjallara og undir gólfi heimilis þeirra í Gloucester og í húsum þar sem þau bjuggu áður í nærliggjandi bæjum.

Sjónvarpsfyrirtæki sagði lögreglunni í Gloucester-skíri frá því að það hefði fundið það sem virtist vera blátt fataefni grafið í kjallara kaffihússins Clean Plate.

Bastholm var klædd bláum jakka þegar hún sást síðast í janúar árið 1968.

mbl.is