Sakamálarannsókn á fyrirtæki Trump

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Ríkissaksóknari í New York rannsakar nú hvort fasteignafyrirtæki Donalds Trumps, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, hafi gerst sekt um saknæmt athæfi. Trump Organization hefur verið til rannsóknar hjá embætti saksóknara í töluverðan tíma.

Að sögn talsmanns embættisins, Fabien Levy, hefur stjórnendum fyrirtækisins verið tilkynnt um að eðli rannsóknarinnar hafi breyst í sakamálarannsókn og sé unnin í samstarfi við saksóknara á Manhattan. 

Trump International Hotel í New York.
Trump International Hotel í New York. AFP

Meðal eigna Trump Organization eru hótel hans og golfvellir en alls skipta rekstrareiningarnar hundruðum.  

Trump neitar því að félagið hafi brotið af sér og hefur lýst rannsókninni á fjármálaumsvifum hans sem pólitískum nornaveiðum og þeim alvarlegustu í sögu Bandaríkjanna. Héraðssaksóknari á Manhattan, Cyrus Vance, er demókrati. 

Skrifstofa ríkissaksóknara í New York, Letitia James, hefur einnig verið að rannsaka ásakanir á hendur Trump Organization um fjár- og tryggingasvik. 

Trump Organization hefur ráðið til sín þekktan verjanda í sakamálum, Ronald Fischetti sem er 84 ára gamall og kominn á eftirlaun. Hann mun verða lögfræðiteymi Trumps til aðstoðar við rannsóknina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert