Bótaskylda vegna PIP-púða staðfest í máli 2.500 kvenna

PIP-brjóstapúðar.
PIP-brjóstapúðar. AFP

Franskur áfrýjunardómstóll komst í morgun að þeirri niðurstöðu að þýska eftirlitsfyrirtækið TUV Rheinland sé skaðabótaskylt í máli yfir 2.500 kvenna sem fengu brjóstapúða franska fyrirtækisins Poly Implant Prothese (PIP), sem framleiddir voru á árunum 2001 til 2010 og ollu konum heilsutjóni víða um heim, meðal annars hér á landi. 

Yfir 400 íslenskar konur fengu PIP-púða í brjóstastækkun hér á landi á árunum 2000 til 2010. Síðar kom í ljós að púðarnir láku og voru fullir af iðnaðarsílíkoni sem ekki er ætlað lækninga. Tvær hópmálsóknir hafa verið reknar í Frakklandi síðustu ár. Hópur íslenskra kvenna er hluti af annarri þeirra, en franskur áfrýjunardómstóll taldi TUV Rheinland skaðabótaskylt í því máli í febrúar. Nú liggur fyrir sama niðurstaða í hinni málsókninni, en þar hafði annar áfrýjunardómstóll áður komist að annarri niðurstöðu. Hæstiréttur Frakklands hafði síðan vísað málinu aftur á áfrýjunarstig. 

Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður íslensku kvennanna í hinni málsókninni, fagnar nýrri niðurstöðu áfrýjunardómstólsins. Hún segir að um mikilvægan áfangasigur sé að ræða, en líkt og í hinu málinu sé líklegt að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar Frakklands. 

„Það lítur því loks út fyrir að það fari að styttast í endanlega niðurstöðu í þessu máli,“ segir Saga. 

Hafi enn áhrif tuttugu árum síðar 

540 Breskar konur voru hluti af þeirri málsókn sem áfrýjunardómstóllinn dæmdi í í dag. BBC ræddi við nokkrar þeirra, sem segjast vera langþreyttar en ánægðar eftir tíu ára baráttu fyrir réttlæti. 

Jan Spivey fékk PIP-púða í kjölfar brjóstnáms. „Þetta hefur verið langt ferðalag,“ segir Spivey. Hún hefur upplifað síþreytu og mikla verki í kjölfar þess að hafa fengið púðana og eftir að þeir voru fjarlægðir var ljóst að sílíkon hafði lekið úr þeim í líkama hennar. 

„PIP-púðarnir mínir sem ég fékk fyrir 20 árum hafa enn áhrif á líf mitt, heilsu og velferð. Ég held að ég hafi verið reið á hverjum einasta degi síðustu 20 ár,“ segir Spivey. 

Alfie Jones lét fjarlægja úr sér PIP-púða í apríl þessa árs. Hún lét loks sannfærast um að láta taka púðana eftir áralanga síðþreytu og verki. Hún segir að sér hafi þótt verst að finna fyrir miklum verkjum án þess að vita ástæðu þeirra: 

„Að vita ekki hvað þetta var, einhver dularfullur sjúkdómur, að geta ekki hreyft mig. Að vera ekki þróttmikil, að lífi mínu hafi á vissan hátt verið stolið af mér,“ segir Jones. 

Þegar PIP-púðarnir voru fjarlægðir úr brjóstum Jones kom í ljós að annar þeirra hafði slitnað í fjölmarga hluta. „Ég trúi ekki að það mátti setja þá í mig. Ég veit ekki hvernig þeir komust í gegnum eftirlit. Ég er með samviskubit fyrir því að hafa gert þetta við líkama minn og fengið þá í upphafi. En ég er reið yfir því að ein manneskja geti gert þetta við aðra manneskju,“ segir Jones.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert