Tók þátt í skólaleikritum og styður Spartak Moskvu

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. AFP

Sergei Lavrov utanríkisráðherra undirbýr nú för sína af landi brott eftir fundi með ráðherrum aðildarríkja Norðurskautsráðsins, forsætisráðherra Íslands og forseta Íslands. Lavrov hefur verið utanríkisráðherra Rússlands síðan árið 2004 og hafði þar áður verið sendiherra Rússa gagnvart Sameinuðu þjóðunum.

Meðal þess sem Lavrov lærði í Alþjóðasamskiptastofnuninni var þáverandi opinbert tungumál í Srí Lanka og dvivehi, opinbert tungumál Maldíveyja. Auk þess lærði hann ensku og frönsku en hann segist sjálfur ekki vera altalandi á hinu síðarnefnda.

Á sínu öðru ári hjá Alþjóðasamskiptastofnuninni settu Lavrov og samnemendur hans leikrit á svið og fluttu á „stóra sviði“ háskólans.

Starfsferillinn fór snemma á flug

Reglum samkvæmt fór Lavrov sem brautskráður nemandi frá Alþjóðasamskiptastofnuninni að vinna fyrir utanríkisráðuneyti Sovétríkjanna. Lavrov hóf þegar í stað störf sem ráðgjafi sovéska sendiráðsins í Srí Lanka.

Á þeim tíma var viðskiptasamband Sovétríkjanna og Srí Lanka í miklum blóma og hófu Sovétríkin meðal annars gúmmíframleiðslu þar í landi.

Sergei Lavrov og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í Hörpu.
Sergei Lavrov og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í Hörpu. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Árið 1976 sneri Lavrov svo heim til Moskvu og hóf störf sem ritari Viðskiptaráðs Sovétríkjanna. Fjórtán árum síðar, hafandi unnið meðal annars á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, var Lavrov settur yfir alþjóðaframkvæmdastjórn utanríkisráðuneytisins sovéska. Loks varð hann svo sendiherra Rússlands gagnvart Sameinuðu þjóðunum árið 1994 og gegndi því starfi til ársins 2004 þegar hann var gerður að utanríkisráðherra Rússlands og hefur hann gegnt því starfi til dagsins í dag.

Á Wikipedia segir, í heldur stuttum kafla um einkalíf Lavrovs, að hann sé mikill áhugamaður um íþróttir og fótbolta sérstaklega. Hann var á yngri árum þekktur fyrir sparksnilli sína og styður Spartak Moskvu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert