Vopnahlé samþykkt á Gaza-svæðinu

Náðst hefur samkomulag um vopnahlé á Gaza-svæðinu. Þetta staðfesta Hamas-samtökin í yfirlýsingu.

Átök á svæðinu hafa staðið yfir í ellefu daga.

Í yfirlýsingu frá Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, kemur fram að ríkisstjórn landsins hafi „samþykkt einróma tillögu að frumkvæði Egypta um skilyrðislaust vopnahlé.“

Vopnahléð tekur gildi klukkan 23 í kvöld.

Átökin brutust út 10. maí eftir ólgu í borginni Jerúsalem.

Ísraelsher sagði að Hamas og aðrar herskáar sveitir íslamista á Gaza-svæðinu hefðu skotið yfir 4.300 eldflaugum í átt að Ísrael en að mikill meirihluti þeirra sem miðað var á fjölmenn svæði hafi verið skotinn niður af loftvarnakerfi landsins.

Átökin stóðu yfir í ellefu daga.
Átökin stóðu yfir í ellefu daga. AFP

12 manns hafa látið lífið í Ísrael af völdum eldflauganna, þar á meðal tvö börn og ísraelskur hermaður. Einn Indverji og tveir taílenskir ríkisborgarar voru einnig á meðal þeirra sem létust.

Loftárásir Ísraela á Gaza-svæðið hafa orðið 232 Palestínumönnum að bana, þar á meðal 65 börnum. 1.900 til viðbótar hafa særst, að sögn heilbrigðisráðuneytis Gaza-svæðisins. Árásirnar hafa haft í för með sér mikla eyðileggingu á svæðinu og um 120 þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín, að sögn Hamas.

Benjamin Netanjahú.
Benjamin Netanjahú. AFP
Eldflaugar á lofti.
Eldflaugar á lofti. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert