Óvíst hvort leiðtogi Boko Haram hafi látist

Abubakar Shekau árið 2018.
Abubakar Shekau árið 2018. AFP

Abubakar Shekau, leiðtogi nígerísku hryðjuverkasamtakanna Boko Haram, er annaðhvort látinn eða alvarlega sár eftir árás klofningsfylkingar Boko Haram sem kennir sig við Ríki íslams. Fréttir af andláti Shekau bárust síðastliðinn miðvikudag.

AFP greindi frá því að hann hefði reynt að svipta sig lífi með hjálp sprengjubeltis eftir að hafa verið handsamaður af fylkingunni ISWAP. Heimildarmenn þeirra í Nígeríu segjast þó ekki geta staðfest fráfall leiðtogans.

Bandaríkin vilja ekki greiða ISIS-tengdum samtökum þóknun 

Bandaríska utanríkisþjónustan hafði áður lofað 7 milljónum Bandaríkjadala til hvers þess sem getur borið kennsl á Shekau eða veitt upplýsingar um hvar hann er niður kominn. Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa þó neitað því í tísti að greiða fylkingunni ISWAP þá þóknun.

Shekau hefur áður verið talinn af

Enn er óvíst hvort Shekau sé allur en hann hefur margsinnis áður verið talinn af en snúið svo skjótt aftur. Talsmaður nígerska hersins segir rannsókn á málinu enn í gangi. Ef Shekau er enn á lífi er hann alvarlega særður.

Boko Haram hafa skipst upp í nokkrar fylkingar síðan fyrrum leiðtogi þeirra Mohammed Yusuf var skotinn árið 2009 sem leiddi til vopnaðrar uppreisnar samtakanna.

Skjáskot af leiðtoga Boko Haram úr myndskeiði frá árinu 2014.
Skjáskot af leiðtoga Boko Haram úr myndskeiði frá árinu 2014. AFP

Síðan þá hafa þessar klofningsfylkingar barist gegn nígeríska hernum en einnig innbyrðis. Fráfall Shekau getur haft gífurlegar afleiðingar fyrir þessi átök.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert