Týnda prinsessan virðist hafa náðst á mynd

Latifa virðist vera hér fyrir miðju.
Latifa virðist vera hér fyrir miðju. Skjáskot/Instagram

Ljósmynd sem birt var í þessari viku á tveimur opnum instagramreikningum virðist sýna Latifu prinsessu, dóttur leiðtoga Dúbaí, sem hefur hvorki heyrst né sést til svo mánuðum skiptir. BBC greinir frá en um miðjan febrúarmánuð fékk fréttastofan sendan vitnisburð frá Latifu á myndbandsformi þar sem hún sagði að henni væri haldið í gíslingu og að hún óttaðist um líf sitt. 

BBC hefur ekki tekist að staðfesta að Latifa sé á myndinni. Aftur á móti hefur vinkona Latifu staðfest að þetta sé prinsessan. 

Myndin er tekin í verslunarmiðstöð í Dúbaí. Þar virðist Latifa sitja með tveimur öðrum konum. 

Sendiráð Sameinuðu arabísku furstadæmanna svaraði ekki fyrirspurn BBC um málið. Þá neituðu Sameinuðu þjóðirnar að tjá sig um ljósmyndina en sögðu BBC að þær biðu „sannfærandi sönnunar um það að Latifa sé á lífi“. Sameinuðu arabísku furstadæmin segjast ætla að leggja slíkar sannanir fram. 

mbl.is