Segir þrjár nýjar sakamálarannsóknir hafnar

Alexei Navalní í desember árið 2019.
Alexei Navalní í desember árið 2019. AFP

Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní segist hafa fengið þær upplýsingar að þrjár nýjar sakamálarannsóknir séu hafnar gegn honum.

„Áhrifamikli glæpahringurinn minn er að stækka,“ skrifaði Navalní í færslu á Instagram.

„Ég er snillingur og stjórna undirheimunum á bak við tjöldin,“ bætti Navalní, sem er 44 ára, kaldhæðnislega við og sagði yfir 20 rannsakendur tengjast þessum nýju sakamálarannsóknum.

Navalní vitnaði í fulltrúa rússneskrar rannsóknarnefndar sem rannsakar alvarlega glæpi og sagðist vera sakaður um að stela fjárframlögum til stofnunar sinnar sem berst gegn spillingu og um að móðga dómara.

Þýskir aðgerðasinnar krefjast lausnar Navalnís úr fangelsi.
Þýskir aðgerðasinnar krefjast lausnar Navalnís úr fangelsi. AFP

Hann er einnig sakaður um að hafa stofnað samtök og hvatt Rússa til að sinna ekki borgaralegum skyldum sínum með því að segja frá rannsókn á meintum auðæfum forsetans Vladimirs Pútíns, að sögn Navalnís.

Í janúar birti hann niðurstöður rannsóknar vegna hallar sem rússneskir auðjöfrar voru sagðir hafa byggt fyrir Pútín. Myndband um málið hefur verið skoðað yfir 116 milljón sinnum á YouTube. Pútín neitar því að eiga höllina.

Navalní var handtekinn í janúar er hann sneri aftur til Rússlands frá Þýskalandi þar sem hann var að jafna sig eftir að eitrað hafði verið fyrir honum. Hann segir rússnesk stjórnvöld hafa fyrirskipað árásina en þau neita því.

Hann afplánar nú tveggja og hálfs árs dóm skammt frá borginni Moskvu vegna gamalla ákæra um fjársvik, sem hann segir vera af pólitískum meiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert