Biðst afsökunar á því að hafa kallað Taívan land

John Cena á Comic Con-ráðstefnunni í Los Angeles 2018.
John Cena á Comic Con-ráðstefnunni í Los Angeles 2018. Ljósmynd/Gage Skidmore

„Ég fór í mörg viðtöl í markaðsherferð bíómyndarinnar, í einu þeirra gerði ég mistök,“ er haft eftir leikaranum John Cena á fréttaveitunni AFP. Mistökin voru þau að kalla Taívan land. „Ég vil halda því til haga, sem mér þykir mjög mikilvægt, að ég elska og virði Kína og Kínverskt fólk.“ Þetta kom fram í afsökunarbeiðni frá Cena á kínverskum samfélagsmiðlum.

Afsökunarbeiðnin frá gamla glímukappanum kom í kjölfar mikillar gagnrýni á hann í Kína sem er stærsti kvikmyndamarkaður veraldar. Cena var að kynna nýjustu Fast & Furious-myndina sem þénaði 148 milljónir Bandaríkjadala frumsýningarhelgina í Kína þrátt fyrir ummæli Cena.

Kínverska ríkisstjórnin heldur fast við þá skýringu að Taívan sé órjúfanlegur hluti af Kína en Taívan hefur í raun verið sjálfstætt ríki frá því Kínverski þjóðernisflokkurinn flúði til eyjunnar eftir borgarastyrjöld 1949.

Kínverskir samfélagsmiðlanotendur voru missáttir við afsökunarbeiðni Cena, fréttaveitan AFP hefur eftir einum þeirra: „Vinsamlegast segðu að Taívan sé hluti af Kína á kínversku ellegar tökum við afsökunarbeiðninni ekki.“

Markaðurinn stendur með Kommúnistaflokknum

Sá gríðarstóri markaður sem myndast hefur fyrir erlent efni í Kína kemur nú sjónarmiðum Kommúnistaflokksins í auknum mæli á framfæri á heimsvísu. Nýlegt dæmi um þetta voru afleiðingar tísts Daryls Morey, aðstoðarframkvæmdarstjóra Houston Rockets, hvar hann hvatti til samstöðu með frelsi og bað fylgjendur sína um að taka stöðu með Hong Kong. Stuttu seinna voru allir leikir Houston Rockets teknir af dagskrá á sjónvarpsstöðvum Kína og kínverskir bakhjarlar sögðu skilið við félagið.

mbl.is