Hætta á mengunarslysi eftir eld í flutningaskipi

Þykkan svartan reyk leggur frá skipinu sem hefur verið alelda …
Þykkan svartan reyk leggur frá skipinu sem hefur verið alelda í viku. AFP

Flutningaskipið MV X-Press Pearl brennur enn úti fyrir strönd Sri Lanka, en eldur kom upp í skipinu fyrir viku síðan. Var skipið um 18 kílómetra fyrir utan Colombo, höfuðborg Sri Lanka, þegar mikil sprenging varð um borð. Skipið beið þess að geta lagst að bryggju þegar sprenging varð að sögn sjóhersins á Sri Lanka. Yfirvöld óttast mengun vegna brunans, bæði þar sem mikil olía er um borð og líka önnur efni sem skipið var að flytja.

Talið er að rekja megi sprenginguna til efna sem flutt voru um borð í skipinu, en samtals eru 1.486 gámar um borð og 25 tonn af saltpéturssýru.

Reynt hefur verið að slökkva eldinn og koma í veg …
Reynt hefur verið að slökkva eldinn og koma í veg fyrir útbreiðslu olíu úr skipinu. AFP

Áhöfn skipsins var komið frá borði, en sérfræðingar frá Hollandi og Belgíu hafa unnið að því að skoða skipið og hvaða möguleikar eru í stöðunni að berjast við eldinn og passa upp á mengun frá skipinu. Yfirvöld á Indlandi hafa jafnframt lofað að senda loftför til að aðstoða við slökkvistarfið.

Samkvæmt yfirlýsingu strandgæslu Indlands eru um 325 tonn af eldsneyti um borð í skipinu og er talin mikil hætta á að olían leki út.

Samtals voru 1.486 gámar um borð í X-Press Pearl flutningaskipinu.
Samtals voru 1.486 gámar um borð í X-Press Pearl flutningaskipinu. AFP
mbl.is