Segir árásirnar hafa gengið of langt

Al­ex­and­er Lúka­sj­en­kó, for­seti Hvíta-Rúss­lands, segir að árásir á landið hafi gengið of langt og vísar þar til reiði alþjóðasamfélagsins í kjölfar þess að farþegaþotu Ryanair var gert að lenda á flugvellinum í Minsk um helgina. 

Hann segir að þeir sem fari fremstir í flokki í baráttunni gegn Hvíta-Rússlandi, innanlands sem utan, hafi gengið of langt og farið út fyrir eðlileg mörk. Ríkisfréttastofa Hvíta-Rússlands, Belta, hefur þetta eftir Lúkasjenkó en hann ávarpaði þing landsins í morgun. 

Á sama tíma óttast fyrrverandi starfssystkini Roman Protasevich, blaðamanns sem er í útlegð og var handtekinn þegar Ryanair var gert að lenda í Minsk á sunnudag, um líf sitt. 

Protasevich, sem er 26 ára gamall, og rússnesk unnusta hans Sofia Sapega, sem er 23 ára, voru handtekin á flugvellinum í Minsk og eru þau bæði í haldi yfirvalda í Hvíta-Rússlandi. Protasevich óttast að vera tekinn af lífi eftir að hafa verið settur á lista stjórnvalda yfir eftirlýsta hryðjuverkamenn. Hann verður væntanlega ákærður fyrir fréttaflutning sinn af forsetakosningunum í heimalandinu í ágúst í fyrra. Hvíta-Rússland er eina land Evrópu þar sem dauðarefsingar eru heimilaðar. 

Protasevich og Sapega voru handtekin eftir að herþotur þvinguðu þotu Ryanair til lendingar en flugvélin var á leið frá Aþenu til Vilnius. Vestræn ríki hafa sakað hvítrússnesk yfirvöld um að hafa rænt Ryanair-þotunni en þau segja að sprengjuhótun hafi borist og því hafi þurft að stöðva flugvélina. Engin sprengja reyndist um borð. 

Að sögn forsetans er það helber lygi að þota Ryanair hafi verið þvinguð til að lenda. Brugðist hafi verið við á löglegan hátt til þess að vernda þá sem voru um borð.

Al­ex­and­er Lúka­sj­en­kó, forseti Hvíta-Rússlands.
Al­ex­and­er Lúka­sj­en­kó, forseti Hvíta-Rússlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert