Assad endurkjörinn forseti Sýrlands

Bashar al-Assad mætir á kjörstað á miðvikudag.
Bashar al-Assad mætir á kjörstað á miðvikudag. AFP

Bashar al-Assad hefur verið kjörinn forseti Sýrlands í fjórða sinn. Forseti sýrlenska þingsins, Hammouda Sabbagh, segir að Assad hafi fengið 95,1% atkvæða og að kjörsókn hafi verið 78,6%. 

Mótframbjóðendur Assad, Abdullah Salloum Abdullah og Mahmoud Ahmed Mari, fengu 1,5% og 3,3% atkvæða. 

Stjórnarandstæðingar, sem eru flestir í útlegð, segja að kosningarnar hafi verið sýndarmennska. Bandaríkin og Evrópusambandið hafa fordæmt kosningarnar og segja þær hvorki hafa verið frjálsar né sanngjarnar. 

Þegar Assad mætti sjálfur á kjörstað á miðvikudag sagði hann að álit vestrænna ríkja skipti „núll“ máli. 

Borgarastyrjöld hefur geisað í Sýrlandi síðan Assad brást við af mikilli hörku þegar friðsamir mótmælendur komu saman og kölluðu eftir auknu lýðræði í mars 2011. Hið minnsta 388 þúsund hafa látist í átökunum og helmingur sýrlensku þjóðarinnar hefur þurft að flýja heimili sín. Sex milljónir Sýrlendinga eru nú flóttamenn í öðrum ríkjum. 

Viðurkenna ekki kosningarnar 

Stór hópur mótmælenda kom saman og mótmælti kosningunum í Idlib-héraði, sem er undir stjórn uppreisnarsveita. Í sameiginlegri yfirlýsingu utanríkisráðherra Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Bretlands og Bandaríkjanna sem gefin var út fyrir kosningarnar segir að þær séu ekki viðurkenndar af ríkjunum og að aðkomu Sameinuðu þjóðanna sé þörf ef að sanngjarnar kosningar eigi að fara fram. 

Assad, sem er 55 ára, hefur verið forseti Sýrlands síðan árið 2000. Hann tók við af föður sínum sem hafði verið forseti landsins í yfir 25 ár áður en sonur hans tók við völdum. 

Síðast var gengið til kosninga í Sýrlandi árið 2014, þrátt fyrir að borgarastyrjöld geisaði og stjórnarandstæðingar neituðu að taka þátt. Síðan þá hefur hagur Assad í styrjöldinni sífellt orðið betri, en loftárásir Rússa og hersveitir með stuðning Írans hafa gert það að verkum að sýrlenski herinn hefur aftur náð yfirráðum yfir stærstu borgir landsins.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert