75% smita af indverska afbrigðinu

Allt að þrjú af hverjum fjórum nýjum Covid-19-smitum í Bretlandi eru af indverska afbrigði veirunnar segir heilbrigðisráðherra Bretlands, Matt Hancock. Á Englandi fjölgaði nýjum smitum af þessu afbrigði umtalsvert á milli vikna, úr 3.535 í 6.959 í þessari. 

Hancock sagði á fundi með blaðamönnum við Downingstræti í gær að ríkisstjórnin hefði vitað að smitum myndi fjölga á sama tíma og dregið er úr sóttvarnareglum. Mestu skipti aftur á móti að fylgjast með innlögnum á sjúkrahús.  

Í gær voru staðfest 3.542 ný Covid-19-smit í Bretlandi og tíu andlát en um er að ræða fólk sem hefur látist innan 28 daga frá því það er greint með Covid-19. 

Sjá nánar hér

Þetta er annar dagurinn í röð þar sem yfir þrjú þúsund greinast með kórónuveiruna í Bretlandi en það hefur ekki gerst síðan um miðjan apríl. Nýjum smitum hefur fjölgað um 20,5% í þessari viku samanborið við síðustu viku. 

Hancock sagði á fundinum að talið sé að allt að 75% nýrra smita séu af stökkbreyttu afbrigði veirunnar sem fyrst greindist á Indlandi í október. Það er talið mun meira smitandi en önnur afbrigði.

Flest eru smitin í Bolton, Bedford og Blackburn en samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis í Bretlandi er einnig smærri hópsmit að finna víðar um landið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert