Nýtt hraðamet kvenna slegið á Everest

Í vor hafa um 350 manns náð upp á topp …
Í vor hafa um 350 manns náð upp á topp Everestfjalls þrátt fyrir heimsfaraldur. Fjallið er 8848.86 metra hátt. AFP

Fjallgöngugarpurinn og Hong Kong-búinn Tsang Yin-hung hefur slegið nýtt hraðamet kvenna á Everest en hún var rétt undir 26 klukkustundum upp á topp fjallsins á sunnudag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá nepölskum embættismanni.

Samkvæmt upplýsingum Gyanendra Shrestha, tengilliðs nepalskra yfirvalda í grunnbúðum Everest, kleif Tsang 8848.86 metra hátt fjallið á aðeins 25 klukkutímum og 50 mínútum. Tsang er 44 ára gömul og reynd fjallakona. „Hún yfirgaf grunnbúðirnar kl. 13:20 á laugardag og náði upp á topp kl. 15:10 næsta dag,“ segir hann.

Tsang og fararstjórar hennar eru nú á leið til Katmandú og eiga enn eftir að tjá sig um afrekið. Síðasta hraðamet kvenna var sett árið 2018 þegar Nepalanum Phunjo Jhangmu Lama tókst að toppa fjallið á 39 klukkustundum og 6 mínútum.

Árið 2017 varð Tsang fyrsta konan frá Hong Kong til að ná upp á topp Everest en það var þriðja tilraun hennar til að klífa fjallið.

Metfjöldi gönguleyfa gefin út í ár

Nepölsk yfirvöld hafa gefið út 408 gönguleyfi á Everest þetta klifurtímabil en hætt var við klifurtímabil síðasta árs vegna Covid-19.

Þrátt fyrir heimsfaraldurinn hafa um 350 manns toppað Everestfjall á þessu tímabili, samkvæmt ferðamálastofu þar ytra. Minnst tveir hópar hafa þó þurft frá að hverfa eftir að göngumenn í hópunum greindust jákvæðir fyrir Covid-19 í grunnbúðum.

Veðurfræðingar í Nepal hafa varað við versnandi veðuraðstæðum á svæðinu eftir að Yaas-stormssveipurinn reið yfir Austur-Indland á miðvikudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert