Sigldu um og ræddu flugránið

Nánir bandamenn. Vel fór á með þeim félögum.
Nánir bandamenn. Vel fór á með þeim félögum. AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, bauð starfsbróður sínum og einræðisherranum Alexander Lúkasjenkó, forseta Hvíta-Rússlands, í bátsferð á öðrum fundardegi bandamannanna í dag.

„Í gær var dagur formlegra viðræðna og í dag eru þær óformlegar,“ sagði talsmaður Kremlar, Dimitrí Peskov, við blaðamenn á fundarstaðnum í Sochi við strönd Svartahafs.

Að hans sögn nýttu Pútín og Lúkasjenkó sér góða veðrið og fóru í bátsferð. Viðræðurnar í dag eru annars sagðar hafa snúist um efnahagslega samvinnu og faraldur kórónuveirunnar.

Lét Pútín í té upplýsingar

Þó bar einnig á góma atburður síðastliðins sunnudags, þegar flug­vél­ var gert að lenda í Minsk í Hvíta-Rússlandi til þess að hand­taka blaðamann­inn og aðgerðasinn­ann Rom­an Prota­sevits.

„Lúkasjenkó lét Pútín í té ítarlegar upplýsingar um það sem gerðist um borð í Ryanair-vélinni,“ segir Peskov.

Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna hafa brugðist hart við og sakað stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi um að hafa stundað flugrán til þess að klekkja á stjórnarandstæðingi forsetans. Hafa evrópsk flugfélög í kjölfarið hætt að fljúga yfir lofthelgi Hvíta-Rússlands, og hvítrússneskum flugfélögum er að sama skapi meinað að ferðast til ríkja Evrópusambandsins.

Stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi hafa sagt að flugvélinni hafi verið skipað að lenda í Minsk, þar sem sprengjuhótun tengd átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs hefði borist. Svissneska tölvupóstsfyrirtækið Proton Technologies lýsti því hins vegar yfir í gær að samkvæmt gögnum sínum væri augljóst, að sprengjuhótunin hefði verið send eftir að búið var að neyða vélina af leið.

Áhrif á flugsamgöngur

Ástandið hefur einnig haft áhrif á flugsamgöngur milli Evrópu og Rússlands, þar sem rússnesk flugmálayfirvöld hafa neitað evrópskum flugfélögum um heimild til þess að breyta flugáætlunum sínum, svo að leið þeirra liggi framhjá Hvíta-Rússlandi.

Rússnesk stjórnvöld lýstu því yfir í gær að „tæknilegar ástæður“ liggi að baki höfnuninni þar sem allar breytingar á flugáætlunum geti valdið töfum, en áhyggjur hafa vaknað innan Evrópusambandsins um að Rússar séu kerfisbundið að neita flugfélögum um lendingarheimild sem vilji sniðganga Hvíta-Rússland.

Sagði Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, að þetta væri til skoðunar. María Zakharova, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins, sagði hins vegar að Vesturveldin væru að tefla öryggi flugfarþega í hættu með því að banna ferðir flugfélaga yfir Hvíta-Rússland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert