Danir hjálpuðu Bandaríkjunum við njósnir

Bandaríkjamenn njósnuðu, með hjálp dönsku leyniþjónustunnar, um ýmsa leiðtoga í …
Bandaríkjamenn njósnuðu, með hjálp dönsku leyniþjónustunnar, um ýmsa leiðtoga í Evrópu, þar á meðal um kanslara Þýskalands, Angelu Merkel. AFP

Leyniþjónusta Danmerkur hjálpaði bandarísku þjóðaröryggisstofnuninni NSA að njósna um leiðtoga í Evrópu, þar á meðal leiðtoga Þýskalands þau Angelu Merkel kanslara og Frank-Walter Steinmeier forseta.

Þetta eru niðurstöður evrópskrar fjölmiðlarannsóknar sem kom út í dag. DW greinir frá.

Uppljóstranir um njósnir Bandaríkjamanna á bandamönnum sínum litu fyrst dagsins ljós árið 2013 en það er ekki fyrr en núna sem blaðamenn hafa fengið aðgang að skýrslu þar sem gerð er grein fyrir stuðningi dönsku leyniþjónustunnar við NSA.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Skýrslan sýnir að Danir, bandamenn og nágrannar Þýskalands, hafi tekið þátt í njósnaaðgerðum Bandaríkjanna sem beindust að bæði kanslaranum og forsetanum. Þáverandi kanslaraefni þýska Sósíaldemókrataflokksins (SPD), Peer Steinbrück, var einnig skotmark njósnanna samkvæmt skýrslunni.

Heimildamenn innan leyniþjónustunnar sendu upplýsingarnar til danskra, sænskra og norskra fjölmiðla (DR, SVT og NRK), og til franska blaðsins Le Monde, þýska dagblaðsins Süddeutsche Zeitung og þýska ríkisútvarpsins NDR og WDR.

Segir þetta hneyksli

„Stjórnmálalega séð lít ég á þetta sem hneyksli,“ sagði Steinbrück og bætti við að þó svo hann sætti sig við að vestræn ríki krefðust þess að leyniþjónusta sé starfandi, sýndi sú staðreynd að dönsk yfirvöld væru að njósna um félaga sína að þau væru að gera hlutina á eigin spýtur.

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands.
Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands. AFP

Hvorki Merkel né Steinmeier munu hafa haft vitneskju um njósnaaðgerðir danskra yfirvalda en talsmaður sagði þó að kanslaranum hefði verið tilkynnt um uppljóstranirnar.

Danska ríkisstjórnin mun hafa vitað af þátttöku leyniþjónustunnar í NSA-hneykslinu frá árinu 2015, að minnsta kosti. Samkvæmt NDR-fréttastofunni hóf ríkisstjórnin að safna upplýsingum um samstarf dönsku leyniþjónustunnar við NSA á árunum 2012 til 2014 í kjölfar upplýsinga fyrrverandi starfsmanns NSA og uppljóstrarans Edward Snowden.

Njósnuðu um stjórnmálamenn víðsvegar í Evrópu

Af upplýsingunum sem var safnað saman var ljóst að danska leyniþjónustan hefði hjálpað NSA að njósna um stjórnmálamenn í Svíþjóð, Noregi, Hollandi, Frakklandi og Þýskalandi. Þá hjálpaði danska leyniþjónustan einnig NSA að njósna um danska utanríkisráðuneytið og fjármálaráðuneytið sem og um danskan vopnaframleiðanda.

Þegar dönsk yfirvöld áttuðu sig á því hversu langt samstarf leyniþjónustu landanna tveggja gekk neyddu yfirvöld alla yfirmenn dönsku leyniþjónustunnar til að láta af störfum árið 2020.

Thomas Wegener Friis, danskur sérfræðingur í leyniþjónustustarfsemi, telur að danska leyniþjónustan hafi staðið frammi fyrir vali um hvaða alþjóðlegu samstarfsaðilum hún ætti að vinna nánar með. „Þeir tóku skýra ákvörðun um að vinna með Bandaríkjamönnum og gegn evrópskum samstarfsaðilum sínum,“ sagði Friis við NDR-fréttastofuna.

mbl.is