Fleiri og fleiri vilja Netanjahú burt

Naftali Bennett.
Naftali Bennett. AFP

Ísraelski þjóðernissinninn Naftali Bennet tilkynnti í dag að hann myndi gerast aðili að stjórnarmyndarviðræðum þar í landi sem binda myndu enda á forsætisráðherratíð Benjamíns Netanjahús, sem er sá forsætisráðherra Ísraels sem lengst hefur setið í sögunni.

Þingmenn í Ísrael hafa enda rætt ötullega saman til þess að reyna að komast að niðurstöðu áður en vopnahlé milli Ísraelshers og hinna palestínsku Hamas-samtaka rennur út á miðvikudag.

Netanjahú, sem á yfir höfði sér dóm fyrir svik og spillingu, hefur rétt hangið á forsætisráðherrastóli undanfarin ár og staðið af sér hvert pólitíska umrótið á fætur öðru. Nú síðast í mars hlaut Likud-flokkur Netanjahús flest þingsæti en mistókst að mynda ríkisstjórn, með þeim afleiðingum að ráðrúm gafst fyrir Yair Lapid, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, að mynda stjórnarmeirihluta án Netanjahús.

Benjamin Netanjahú.
Benjamin Netanjahú. AFP

Lapid mjög í mun að koma Netanjahú frá

Lapid er sagður ætla sér að koma saman stjórn með breiða pólitíska skírskotun, sem fjölmiðlar í Ísrael segja að yrði „stjórn breytinga“. Lapid hefur með sér í ráðum fyrrnefndan Naftali Bennet ásamt ísraelskum þingmönnum af arabískum uppruna.

Meðal þess sem Lapid er sagður bjóða Bennet er forsætisráðherrastóllinn og því ljóst að Lapid er mjög í mun að koma Netanjahú frá. Þá hefur hann lagt til að forsætisráðherraembættið gangi á víxl, milli hans sjálfs og Bennets, á fyrsta kjörtímabili nýs stjórnarmeirihluta.

Netanjahú, sem setið hefur í 12 ár í röð og eitt þriggja ára kjörtímabil þar á undan, sagði í sjónvarpsávarpi í dag að áform Lapids og félaga væru „ógn við þjóðaröryggi Ísraels“.

mbl.is