Í kapphlaupi við tímann í Ísrael

Netanjahú (til hægri) og Yair Lapid, formaður Yesh Atid.
Netanjahú (til hægri) og Yair Lapid, formaður Yesh Atid. RONEN ZVULUN

Kjörnir fulltrúar í Ísrael vinna nú í kapphlaupi við tímann við að klára samninga um samsteypustjórn sem myndi binda enda á áralanga stjórn Benjamíns Netanjahús, forsætisráðherra Ísraels. 

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Yair Lapid, í miðjuflokki og þjóðernissinninn Naftali Bennett höfðu viðræður í allan gærdag um forsendur og áskoranir við mögulegt stjórnarsamstarf. Fresturinn til að mynda stjórn rennur út á miðnætti í kvöld þar í landi.

„Samninganefnd fyrir stjórnarsamstarfi sat í alla nótt og það þokaðist í rétta leið í áttina að stjórnarsáttmnála,“ er haft eftir talsmanni Bennett í tilkynningu. 

Þar kom fram að Bennett, formaður Yamina-flokksins, myndi funda með Lapid, formanni Yesh Atid, að nýju seinnipartinn í dag. 

Viðræðurnar eru haldnar í skugga þess að Netanjahú, sem lengst allra hefur setið í stóli forsætisráðherra, hefur verið ákærður fyrir fjársvik, mútur og trúnaðarbrest í opinberu embætti, sem og hann neitar. 

Lapid og Bennett  lýstu því yfir á sunnudaginn að þeir hygðust mynda „stjórn þjóðareiningar“ þar sem þeir munu báðir fá að sitja hluta tímabilsins í stól forsætisráðherra. Bennett myndi fyrst gegna hlutverkinu, síðar Lapid. 

Lapid tók við stjórnarmyndunarumboði af Netanjahú eftir fjórðu kosningarnar í Ísraels í röð, á tveimur árum, þar sem ekki lágu fyrir skýr úrslit um sigurvegara eða hreinn meirihluti. 

mbl.is