Maður smitaðist af fuglaflensu í Kína

Fólk fylgist með farfuglum nærri ánni Yalu í borginni Dandong. …
Fólk fylgist með farfuglum nærri ánni Yalu í borginni Dandong. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP

Fyrsta tilfelli fuglaflensunnar H10N3 hjá manneskju greindist í Kína í lok síðasta mánaðar. Yfirvöld þar í landi greindu frá þessu í dag. Maðurinn sem smitaðist er 41 árs gamall og var hann lagður inn á spítala með hita 28. apríl. Mánuði síðar var hann greindur með fuglaflensusmit.

Heilbrigðisstofnun Kína (NHC) segir hættuna á mikilli útbreiðslu mjög litla. Maðurinn er nú í stöðugu ástandi og hafa nánir aðstandendur hans ekki veikst. 

Smithættan metin lág hér á landi

Í lok síðustu viku felldi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úr gildi varúðarráðstöfunum gegn fuglaflensu, að fengnum tillögum Matvælastofnunar. Þetta kemur fram á vef stofnunarinnar. Þar segir:

„Stofnunin hefur lækkað viðbúnaðarstig þar sem hún metur smithættu núna lága. Það þýðir að leyfilegt er á ný að hleypa alifuglum út úr húsi eða út fyrir yfirbyggð gerði. Leyfilegt er að halda sýningar og aðrar samkomur með fugla. Stofnunin hvetur þó fuglaeigendur til að vera áfram á varðbergi gagnvart fuglaflensu og gæta fyllstu varúðar áður en fuglum er hleypt út.“

Síðasti faraldur 2016 til 2017

Heilbrigðisstofnun Kína lýsir H10N3 sem lítið sjúkdómsvaldandi, þ.e. ólíklegri til þess að valda andláti eða alvarlegum veikindum, hjá fuglum. Þá segir Heilbrigðisstofnun Kína að engin smit H10N3 hafi áður greinst hjá fólki. 

Nokkrir stofnar fuglaflensu hafa fundist á meðal dýra í Kína en mjög sjaldgæft er að veiran valdi stórum hópsmitum á meðal manna. 

Síðasti faraldur fuglaflensu á meðal fólks í Kína átti sér stað síðla árs 2016 til 2017. Þá var H7N9-veiran á ferðinni. 1.668 manns hafa smitast af þeirri veiru síðan árið 2013, samkvæmt matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert