Ótrúleg hetjudáð sjö ára drengs

Sjö ára gamall Chase Poust bjargaði fjölskyldu sinni sem lenti …
Sjö ára gamall Chase Poust bjargaði fjölskyldu sinni sem lenti í sjálfheldu í bátsferð í Jacksonville, Flórída á föstudag. Skjáskot/CNN

Sjö ára drengur sýndi ótrúlega hetjudáð er hann synti í land til að fá hjálp fyrir föður sinn og systur sem höfðu lent í sjálfheldu í bátsferð úti á St. Johns-vatninu í Jacksonville í  Flórída á föstudag. Frá þessu segir í umfjöllun CNN.

Faðir drengsins, Steven Poust, hafði stöðvað bátinn til að leyfa börnunum sínum tveimur, Chase og Abigail, sem eru sjö og fjögurra ára, að synda í vatninu.

„Abigail hélt í bátinn en sleppti svo skyndilega takinu vegna þess hve straumhörð áin var,“ segir Chase um litlu systur sína.

Þá ákvað Chase, sem hafði líka haldið í bátinn en var ekki í björgunarvesti, að sleppa takinu til að reyna bjarga systur sinni frá því að reka burt frá bátnum en lenti sjálfur í sjálfheldu.

Vissi ekki hvað myndi gerast

Faðir þeirra stökk þá út í til að reyna bjarga þeim. Hann sagði Chase að synda í land til að fá aðstoð á meðan hann reyndi að bjarga dóttur sinni, sem var í björgunarvesti.

„Ég sagði þeim að ég elskaði þau því ég vissi ekki hvað myndi gerast,“ segir Steven. „Ég reyndi að halda mig nálægt þeim báðum en ég örmagnaðist og Abigail rak í burtu frá mér.“

Sjö ára drengurinn Chase sagði í viðtali við sjónvarpsstöðina WKXT að það hefði tekið hann klukkutíma að synda í land. Hann hefði synt hundasund og látið sig fljóta á bakinu til skiptis, til að hvíla sig. Þegar hann náði loks í land hafi hann hlaupið að fyrsta húsinu sem hann sá til að fá aðstoð.

Að sögn slökkviliðsins hafði föður hans og systur rekið um þrjá kílómetra burt frá bátnum á meðan.

Fjölskyldunni bjargað

Slökkviliðið komst að bátnum en varð að hringja eftir aðstoð annarra viðbragðsaðila til að bjarga fjölskyldunni.

„Ef það hefði ekki verið fyrir aðstoð samstarfsfélaga okkar hefði þetta ekki endað svona vel,“ segir Eric Prosswimmer, slökkviliðsmaður við fjölmiðla eftir björgunaraðgerðirnar.

„Við kölluðum út alla tiltæka viðbragðsaðila sem mættu hratt og örugglega á staðinn. Það er okkur mikil ánægja að tilkynna að fjölskyldunni hefur verið bjargað og að ástand þeirra er gott,“ segir hann. „Við hefðum ekki getað beðið um betri endi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert