Banna framboð úr röðum Navalnís

Málað yfir mynd af Navalní í Moskvu.
Málað yfir mynd af Navalní í Moskvu. AFP

Efri deild rússneska þingsins samþykkti með miklum meirihluta löggjöf sem talin er vera samin til þess að koma í veg fyrir framboð úr stuðningsmannahópi Alexeis Navalnís. 

Lögin koma í veg fyrir að leiðtogar, stuðningsmenn eða háttsettir meðlimir „öfgasamtaka“ geti boðið sig fram í þingkosningum í Rússlandi. 

Dómstólar í Rússlandi skera nú úr um hvort hreyfing stuðningsmanna Navalnís teljist öfgasamtök. Búist er við úrskurði þess efnis í næstu viku. 

Gagnrýnendur Vladimírs Putíns, forseta Rússlands, segja yfirvöld nú víkka út herferð sína gegn stjórnarandstöðu í aðdraganda þingkosninga sem verða í september.

Eftir handtöku Navalnís, ásamt fjölda stuðningsmanna hans, hafa tveir pólitískir aktívistar, Dmitrí Gudkov og Andrei Pivovarov, verið handteknir síðastliðna tvo daga. 

Pivovarov, sem er fyrrverandi forstjóri samtakanna Open Russia, var tekinn í varðhald úr flugi á leið sinni til Varsjár í Póllandi. Hann á nú yfir höfði sér allt að sex ára fangelsisvist fyrir þátttöku sína í „óæskilegum“ samtökum.

mbl.is