Hvetur Biden til fangaskipta

Paul Whelan í dómsal í Rússlandi árið 2018.
Paul Whelan í dómsal í Rússlandi árið 2018. AFP

Fyrrverandi liðsmaður í bandaríska sjóhernum sem var dæmdur fyrir njósnir og situr í fangelsi í Rússlandi hefur hvatt Joe Biden Bandaríkjaforseta til að skipta á föngum við Vladimir Pútín Rússlandsforseta þegar þeir hittast í Genf 16. júní.

Paul Whelan var starfsmaður fyrirtækis sem útvegaði varahluti í bandaríska bíla þegar hann var handtekinn á hóteli í Moskvu, höfuðborg Rússlands, í desember 2018. Hann var dæmdur í 16 ára fangelsi í júní 2020.

Í viðtali við fréttastofu CNN sagðist hann vera í haldi sem gísl vegna stirðra samskipta Bandaríkjanna og Rússlands.

„Mannrán á bandarískum ríkisborgara má ekki líðast nokkurs staðar í heiminum,“ sagði hann í símaviðtali úr fangelsinu.

Samsett mynd af Pútín og Biden.
Samsett mynd af Pútín og Biden. AFP

„Þetta snýst ekki um Rússland gegn mér. Þetta snýst um Rússland gegn Bandaríkjunum og Bandaríkin verða að svara fyrir þetta gísla-milliríkjaástand og leysa það eins fljótt og mögulegt er,“ sagði hann.

„Ég bið því Biden Bandaríkjaforseta um að ræða þetta mál af krafti og leysa í samtölum við rússneska ráðamenn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert