Bjór og bólusetning í einum pakka

Brugghús í bandaríska bænum Sterling í Virginíu-ríki hefur ákveðið að bjóða þeim sem láta bólusetja sig með bóluefni Janssen (Johnson & Johnson) upp á ókeypis bjór. Aðeins þarf eina bólusetningu af bóluefninu til að verða fullbólusettur.

Íbúi í bænum sem AFP-fréttastofan ræddi við í gær segist hafa ákveðið að nýta sér þetta góða tækifæri til að skoða brugghúsið og fá sér bjór um leið að fá bólusetningu við Covid-19.

Boðið var upp á bólusetningu og bjór hjá Beltway Brewing í gær en Inova Health tók þátt í átakinu með því að mæta með bóluefni og bólusetja gesti og gangandi. Til þess að geta tekið þátt varð fólk að vera orðið 21 árs og sýna fram á aldur með skilríkjum. Ekki þurfti að drekka bjórinn á staðnum því þeir sem voru akandi gátu fengið inneignarnótu. 

Þeir sem voru þegar bólusettir gátu mætt með bólusetningarvottorð því til sönnunar og fengið smakk af framleiðslu brugghússins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert