Fara fram á 30 ára fangelsi

Derek Chauvin.
Derek Chauvin. AFP

Saksóknarar í Minneapolis fóru fram á það við dómara í gær að lögreglumaðurinn sem hefur verið dæmdur fyrir morðið á George Floyd, Derek Chauvin, verði dæmdur í 30 ára fangelsi.

Verjendur Chauvin fóru aftur á móti fram á að refsingin yrði sá tími sem hann hefur þegar afplánað og síðan skilorðsbundin vegna þess að skjólstæðingur þeirra hafi gerst sekur um mistök framin í góðri trú.

Refsingin verður kveðin upp 25. júní en í skjölum sem saksóknaraembættið hefur sent dómsstólnum vegna uppkvaðningarinnar kemur fram að Chauvin hafi misnotað stöðu sína með svívirðilegum hætti. Framferði hans hafi verið sérstaklega grimmilegt. 

Myndskeið náðist af Chauvin þar sem hann kraup á kné á hálsi Floyd, sem var grunaður um að hafa framvísað fölsuðum 20 dala seðli í verslun, í meira en níu mínútur eða þar til hann missti meðvitund og lést 25. maí 2020. Lögreglumaðurinn virti að vettugi bón Floyds um að vera látinn laus þar sem hann næði ekki andanum.  

Fá mál hafa vakið jafn mikla athygli og hörð viðbrögð í Bandaríkjunum áratugum saman. Chauvin var dæmdur fyrir morð 20. apríl og strax fangelsaður. Þyngsta mögulega refsing fyrir morð af annarri gráðu er 40 ára fangelsi. Þar sem þetta er fyrsta brot Chauvin hefði hann undir eðlilegum kringumstæðum átt yfir höfði sér tólf og hálfs árs fangelsi en vegna þess að dómarinn tók fram við dómsuppkvaðninguna mögulega refsihækkun vegna þess hve glæpurinn var grimmilegur, gæti dómurinn orðið þyngri.  

mbl.is