Komast ekki frá Nepal vegna Covid

Fjallgöngufólk sem er að reyna að komast til síns heima eftir að hafa klifið Everest og aðra tinda í Himalajafjöllunum hefur lent í vandræðum þar sem stjórnvöld í Nepal hafa bannað nánast allt flug til og frá landinu vegna fjölgunar Covid-19 smita.

Nánast allt alþjóðlegt flug liggur niðri um Nepal út mánuðinn en landamæri Nepal eru að Kína og Indlandi. Nepal gaf út 742 fjallgönguleyfi í ár. Þar ef eru 408 til fjallgöngumanna sem stefndu á Everest í apríl og maí. Hundruð fjallgöngumenn eru nú að yfirgefa Himalajafjöllin áður en árlegt regntímabil hefst. 

Tashi Lakpa Sherpa, stjórnandi hjá Seven Summit Treks, segir í samtali við Reuters-fréttastofuna að aðeins væru fimm alþjóðleg flug í boði frá Nepal í hverri viku en þau eru til Indlands, Katar og Tyrklands. Því hefði fólk lent í vandræðum.

„Ástandið gæti versnað þegar fleiri fjallgöngumenn ljúka leiðöngrum sínum og snúa aftur til Katmandú á næstu dögum,“ segir Sherpa í viðtali við Reuters-fréttastofuna.

Bandaríkjamaðurinn Andrew Hughes segir í viðtali við Reuters að hann hafi neyðst til að kaupa sæti með leiguflugi til Katar í gærkvöldi þar sem ekki var möguleiki á að komast með áætlunarflugi. 

Mexíkóska fjallgöngukonan Viridiana Alvarez, sem hefur setið föst í Nepal í tæpar þrjár vikur eftir að hafa klifið Annapurna, segir að það hafi verið algjör heppni að hún gat keypt farmiða með leiguflugi en hún flaug einnig til Katar í gærkvöldi. 

Tugir fjallgöngumanna þurftu að yfirgefa grunnbúðir Everest vegna mögulegrar Covid-sýkingar og að minnsta kosti tvö fyrirtæki hafa hætt við leiðangra á Everest í ár vegna smita meðal leiðangursmanna.

Þrátt fyrir það hafa yfirvöld í Nepal neitað að viðurkenna að Covid-smit hafi komið upp meðal fjallgöngumanna á Everest í ár.

Íslensku fjallagarparnir Sigurður Sveinsson og Heimir Hallgrímsson eru meðal þeirra sem fóru á Everest í ár en báðir voru með Covid-smit þegar þeir náðu á tindinn.

Undanfarnar vikur hafa yfir 30 fjallgöngumenn verið fluttir á brott úr grunnbúðum með þyrlum vegna veikinda. Að minnsta kosti þrír til viðbótar við þá Sigurð og Heimi hafa greint frá því opinberlega að hafa greinst með Covid-19 að því er segir í frétt AFP-fréttastofunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert