Fundu fjársjóð í maga hvals

Búrhvalur sést hér strandaður á Englandi. Ætli hvalambur hafi verið …
Búrhvalur sést hér strandaður á Englandi. Ætli hvalambur hafi verið í maga hans? AFP

Hópur fiskimanna í Jemen datt í lukkupottinn er þeir fundu fjársjóð í maga búrhvals að andvirði 1,5 milljóna dollara, jafnvirði rúmlega 183 milljóna króna. Mennirnir, 35 talsins, römbuðu á hræ hvalsins fljótandi í Adenflóa.

Magi hvalsins var fullur af hvalambri, en það er verðmætt og fágætt efni sem verður til í meltingarfærum búrhvala. Efnið er eftirsótt af ilmvatnsframleiðendum sem nýta það til að láta lykt ilmvatna endast lengur. Aðeins er hægt að finna hvalambur í eitt til fimm prósent búrhvala.

Jemen er eitt fátækasta ríki heims og telja Sameinuðu þjóðirnar að um 80 prósent landsmanna hafi ekki nægan aðgang að mat. Borgarastríð hefur geisað í landinu síðustu ár.

Neyð hefur verið mikil í Jemen frá því að borgarastyrjöld …
Neyð hefur verið mikil í Jemen frá því að borgarastyrjöld braust þar út árið 2014. AFP

Gjörbreytir lífinu

Fundurinn hefur gjörbreytt lífi fiskimannanna. „Þegar við fundum hvalambrið varð ég svo glaður,“ sagði einn þeirra í viðtali við BBC.

Ágóðanum var skipt jafnt á milli fiskimannnanna. Þeir deildu honum einnig með fólki sem hafði hjálpað til og gáfu til fólks í neyð í þorpinu. Þá keyptu þeir hús, bíla og báta fyrir peninginn.  

„Við erum allir fátækir. Við bjuggumst aldrei við því að við myndum fá svona mikla peninga fyrir þetta,“ sagði annar.

Mennirnir ætla að halda áfram að veiða þrátt fyrir fundinn. „Þetta er eins og ótrúlegur draumur. Ég þarf samt að halda áfram að fara á sjóinn, jafnvel þó ég fái ekkert. Sjómennskan er í blóðinu,“ segir einn mannanna. BBC segir frá þessu. 

mbl.is