Ársgamalt barn lést eftir atlögu hunda

Ársgamalt barn lést í Brumunddal í Noregi í dag í …
Ársgamalt barn lést í Brumunddal í Noregi í dag í kjölfar árásar tveggja hunda. Skjáskot/Google

Eins árs gamalt barn lést í dag í kjölfar árásar tveggja hunda í Brumunddal í Innlandet-fylki í Noregi, norður af Ósló. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá lögreglu umdæmisins, en henni barst tilkynning um árás hundanna laust eftir klukkan 12 að norskum tíma, klukkan 10 á Íslandi.

Að sögn Haagen Løvseth lögregluvarðstjóra verða báðir hundarnir aflífaðir í dag, en lögregla hefur ekki gefið upplýsingar um hvers konar hundar það voru sem veittust að barninu, sem var gestkomandi á svæðinu hjá eigendum hundanna. „Það er skelfilega sorglegt fyrir alla sem að málinu koma að barn týni lífi sínu við atburð sem þennan,“ lét Løvseth hafa eftir sér í fjölmiðlum í dag.

Skelfilegt fyrir alla

Lögregla vinnur nú að frumrannsókn á vettvangi og ræðir við vitni, en aðstandendur barnsins þiggja áfallahjálp frá fagfólki sveitarfélagsins Ringsaker.

Anita Ihle Steen, bæjarstjóri þar, segir að fólkið hljóti alla þá aðstoð sem framast sé unnt að veita eftir áfallið. „Þetta er skelfilegt fyrir alla, ekki síst fyrir fjölskylduna og barnið,“ hefur norska dagblaðið Aftenposten eftir bæjarstjóranum.

Løvseth varðstjóri segir lögreglu ekki geta veitt frekari upplýsingar um atburðarásina að svo búnu. „Við munum upplýsa frekar um gang mála síðar,“ segir varðstjórinn.

NRK

Aftenposten

VG

mbl.is