„Ég er hamingjusamur“

„Ég geri þetta fyrir heilsuna – það er það fyrsta. Ég held áfram fyrir vöðvana því ég hef orðið var við að ef ég hætti að æfa í tvær eða þrjár vikur þá er miklu erfiðara að byrja að nýju. Það er því betra að koma oftar,“ segir Marcel Rémy. Hann er vel þekktur og um leið virtur meðal fjallgöngumanna í Sviss enda hefur hann stundað fjallgöngur og klettaklifur lengi. 

Marcel Rémy sést hér á morgunæfingu og erfitt að ímynda …
Marcel Rémy sést hér á morgunæfingu og erfitt að ímynda sér að hér klífi 98 ára gamall maður. AFP

Marcel Remy lætur ekki deigan síga þrátt fyrir að verða orðinn 98 ára gamall og gera fáir sér grein fyrir háum aldri hans sem fylgjast með honum við klifurvegginn.

Á hverjum mánudagsmorgni ekur Rémy gamalli Toyota-bifreið sinni að klifurhúsi í bænum Villeneuve við Genfarvatn. Þar hittir hann son sinn, Claude, og þeir leggja á ráðin um leiðina á toppinn. 

Marcel Rémy veltir verkefni dagsins fyrir sér.
Marcel Rémy veltir verkefni dagsins fyrir sér. AFP

Rémy fer sér að engu óðslega þegar hann reimar á sig í klifurtútturnar (klifurskó) og öryggisfestingar. Síðan klífur hann upp 16 metra háan vegginn. Hann segir við fréttamann AFP-fréttastofunnar að hann hafi gríðarlega gaman af þessu enda fari saman áreynsla, hugsun og að skora sjálfan sig á hólm. „Það hentar mér vel,“ segir Rémy þegar hann tók hlé á milli morgunæfinganna og ræddi við fréttamann.

Hann var harður pabbi

Rémy segir mikilvægt að ganga ekki of langt og gæta vel að öndun og hreyfingu. Ef honum hleypur kapp í kinn fær hann að finna fyrir því eftir á. Hvort sem það eru axlir eða vöðvarnir. Betra sé að skora vegginn á hólm með hægð og þá gangi þetta allt upp.

Klifur hefur alltaf verið stór hluti af lífi Rémys. Hann er alinn upp í svissnesku Ölpunum og þeir urðu leikvöllur hans á uppvaxtarárunum. „Hann var harður pabbi. Hjá honum var þetta að duga eða drepast, hverjar sem aðstæðurnar voru,“ segir elsti sonur hans, Claude, sem er 68 ára gamall. 

AFP

Þrátt fyrir að vera harður húsbóndi vissi hann hvernig hann ætti að koma ástríðu sinni fyrir fjallamennsku áfram til næstu kynslóðar því Claude og bróðir hans, Yves sem er 65 ára, eru þekktir í heimi fjallgöngumanna líkt og faðir þeirra. 

Í ágúst í fyrra tileinkaði helsta klifurtímarit Frakka, Grimper, blaðið helstu leiðöngrum þeirra feðga saman. Alls var umfjöllunin 40 blaðsíður. 

AFP

Kynslóðaskipti hafa hins vegar átt sér stað því nú er það Claude sem leiðbeinir föður sínum þegar hann klífur veginn í klifurhúsi Villeneuve. Klifurhúsi sem er eitt það stærsta í Sviss.  

Þegar Rémy hefur lokið klifri dagsins sest hann á bekk, kreppir hnefana og segir við son sinn: „Ég er hamingjusamur.“ Claude segir að faðir hans sé enginn aukvisi og vanur ýmsu. Í miðri erfiðri klifurleið gætir hann alltaf að sér og velur bestu leiðina upp.

Feðgarnir Claude og Marcel Rémy.
Feðgarnir Claude og Marcel Rémy. AFP

Að sögn Claudes vekur faðir hans athygli hvar sem hann kemur og margir eiga erfitt með að trúa að hann sé 98 ára gamall. Þrátt fyrir að unga fólkið beri virðingu fyrir Rémy er því einnig öfugt farið og Rémy fylgist grannt með þeim yngri og reynir að læra af þeim.

Myndin Les frères Remy

Í dag æfir Rémy mest innandyra en hann fer samt sem áður reglulega á alvörufjöll. Árið 2017, þegar hann var 94 ára, kleif hann Miroir de l'Argentine, þekkta klifurleið í Sviss, og lét sig ekki muna um að klifa 500 metra háan kalkvegginn. Hann er ekki á því að hætta að hreyfa sig: „Ef ég hef áfram gaman af því og líður vel, hvers vegna ætti ég að hætta?“ spyr Rémy. 

Sjá nánar hér

 

 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert