Styttist í Evrópuför Bidens

Bandarísku forsetahjónin, Joe Biden og Jill Biden.
Bandarísku forsetahjónin, Joe Biden og Jill Biden. AFP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, heitir því að Bandaríkin muni standa með evrópskum bandamönnum sínum gegn Rússum. Biden kemur til Evrópu á miðvikudag og situr þar leiðtogafundi G-7-ríkjanna sem og Atlantshafsbandalagsins. Eins munu hann og Vladimír Pútín eiga fund í Genf 16. júní.

Leiðtogafundur Pútíns og Bidens er haldinn í skugga einnar mestu samskiptakreppu ríkjanna í nokkur ár. Eru það einkum mál eins og ásakanir um tölvuárásir, mannréttindabrot og kosningasvindl sem valda þessum deilum. 

Í grein sem Biden skrifar á leiðaraopnu Washington Post (op-ed) í gær heitir hann því að styðja við lýðræðislega bandamenn bandarískra yfirvalda þegar kemur að Rússlandi og Kína. Bandaríkin standi með þeim þegar kemur meðal annars að Úkraínu og engin spurning sé um að Bandaríkin muni verja lýðræðisleg gildi sín sem ekki er hægt að taka út fyrir sviga þegar kemur að öðrum hagsmunamálum. 

„Pútín forseti veit að ég mun ekki hika við að bregðast við skaðlegum aðgerðum í framtíðinni,“ segir Biden í greininni og heitir því að leggja áherslu á skuldbindingar Bandaríkjanna, Evrópu og svipaðra lýðræðisríkja á að standa fyrir mannréttinum og mannvirðingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert