Vél Harris snúið við skömmu eftir flugtak

Kamala Harris eftir að hún var komin út úr flugvélinni.
Kamala Harris eftir að hún var komin út úr flugvélinni. AFP

Flugvél Kamölu Harris, varaforseta Bandaríkjanna, þurfti að snúa við og lenda skömmu eftir flugtak í dag vegna tæknilegra vandamála. Harris var á leið til Gvatemala í sína fyrstu opinberu heimsókn erlendis.

„Það er í góðu lagi með mig, í góðu lagi,“ sagði Harris við blaðamenn, með þumalinn á lofti eftir að hún gekk út úr flugvélinni og sneri aftur til herstöðvar í útjaðri Washington.

„Við fórum öll með litla bæn en við höfum það öll gott,“ bætti hún við.

Kamala Harris gengur í burtu frá flugvélinni.
Kamala Harris gengur í burtu frá flugvélinni. AFP

Talsmaður Harris, Symone Sanders, sagði að varaforsetinn myndi skipta um flugvél og að frekari tafir yrðu ekki á dagskrá hennar.

Blaðamaður um borð sagðist hafa heyrt „óvenjulegan hávaða“ frá lendingarbúnaði vélarinnar, sem er þekkt sem „Forsetavél númer tvö“ þegar hún var að taka á loft en bætti við að lendingin hefði gengið eins og í sögu.  

Harris mun einnig heimsækja Mexíkó í ferðalagi sínu.

mbl.is