Bjóða alla bólusetta velkomna

AFP

Bólusettir ferðamenn eru nú boðnir velkomnir til Spánar og skiptir engu hvaðan þeir koma. Spænsk yfirvöld vonast til þess að straumur ferðafólks hafi jákvæð áhrif á efnahag landsins enda ferðaþjónusta ein helsta atvinnugrein landsins.

„Spánn er öruggur áfangastaður,“ segir heilbrigðisráðherra Spánar, Carolina Darias. Hún segir að Spánn sé að undirbúa að endurheimta leiðtogahlutverk sitt á sviði ferðaþjónustu í heiminum. 

AFP

Óbólusettir Evrópubúar, sem geta komið til Spánar ef þeir geta sýnt fram á neikvætt PCR-próf sem er nýrra en 72 klukkustunda gamalt, mega frá og með deginum í dag taka hraðpróf sem er mun ódýrari kostur en PCR-prófin. AFP-fréttastofan greinir frá þessu.

Aftur á móti hafa bresk yfirvöld ekki enn tekið Spán út af lista yfir há-áhættulönd sem þýðir að breskir ferðamenn þurfa að fara í sóttkví þegar þeir snúa aftur heim úr fríinu sem og að greiða fyrir rándýr Covid-próf þar.

AFP

Yfirleitt eru Bretar fjölmennastir í hópi gesta á Spáni og árið 2019 var einn af hverjum fimm ferðamönnum sem kom til Spánar frá Bretlandi. Alls komu 83,5 milljónir ferðamanna til Spánar það ár. 

Jose Luis Prieto, forseti Sambands ferðaþjónustunnar á Spáni (Unav) vonast eftir hröðum bata í atvinnugreininni strax í dag. Hann segir að mikið hafi borist af fyrirspurnum frá þremur helstu markaðslöndum þeirra: Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi. 

AFP

Um allan Spán, allt frá  Costa del Sol til Kanaríeyja, eru hótel og veitingastaðir að opna að nýju eftir margra mánaða lokun. Eins hafa flugfélög hafið áætlunarflug til vinsælla ferðamannastaða eftir að hafa stöðvað slíkt flug þegar kórónuveirufaraldurinn geisaði.

Nú í morgunsárið var von á 20 farþegaþotum á flugvöllinn í Malaga og eins mega skemmtiferðaskip koma að landi á Spáni frá og með deginum í dag. 

mbl.is