Dauðarefsing við vörslu á erlendu efni

Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un.
Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un. AFP

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa nýlega sett lög sem eiga að þurrka út öll möguleg erlend áhrif. Þungar refsingar liggja við því að ganga í gallabuxum, vera með erlendar kvikmyndir í fórum sínum og jafnvel slanguryrði eru refsiverð.

Fréttamenn BBC velta fyrir sér hvers vegna þessi leið er valin í einræðisríkinu og ræddu meðal annars við Yoon Mi-so sem býr í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu en er frá Norður-Kóreu. Hún var 11 ára gömul þegar hún sá mann tekinn af lífi í fyrsta skipti. Hann hafði verið gripinn með suðurkóreska kvikmynd. Allir nágrannar hans voru þvingaðir til að horfa á aftökuna. „Ef þú gerðir það ekki þá var það túlkað sem landráð,“ segir hún í viðtali við BBC.

Þess var vel gætt að allir vissu hver refsingin var við því að smygla ólöglegum myndböndum – dauðarefsing, segir hún.

„Ég gleymi aldrei manninum sem var með bundið fyrir augun, ég get enn séð fyrir mér tárin streyma niður andlit hans. Þetta var áfall fyrir mig. Augnbindið var gegnsósa í tárum.“

Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu.
Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu. AFP

Netmiðillinn Daily NK í Seúl, sem er með heimildarmenn í Norður-Kóreu, greinir frá því að þrír unglingar hafi verið sendir í endurhæfingarbúðir fyrir að hafa klippt á sér hárið svipað því sem K-pop-stjörnurnar gera og stytt buxur sínar fyrir ofan ökkla. BBC tekur fram í frétt sinni að það geti ekki staðfest þessa frétt Daily NK.

Stríð án vopna

Allt er þetta vegna stríðs leiðtoga landsins, Kim Jong-un. Hann heyir nú stríð án kjarnorkuvopna eða eldflauga við eigin þegna. Sérfræðingar segja að hann vilji með þessu stöðva upplýsingaflæði til landsins þar sem lífið í landinu er að verða nánast óbærilega erfitt. Milljónir búa við hungur og Kim vill tryggja að landsmenn séu mataðir með áróðri stjórnvalda fremur en með lýsingum af betra lífi handan landamæranna. 

Einangrun Norður-Kóreu hefur aukist að undanförnu en í fyrra lokuðu yfirvöld landamærunum vegna kórónuveirufaraldursins. Innflutningur frá Kína hefur nánast lagst af vegna þessa og þessi sjálfseinangrun hefur tekið harðan toll af efnahag Norður-Kóreu. 

Foreldrum og yfirmönnum einnig refsað

AFP

Samkvæmt Daily NK fela nýju lögin það í sér að ef verkafólk er staðið að því að brjóta lögin má einnig refsa verksmiðjustjóranum fyrir brotið. Ef börn brjóta lögin má einnig refsa foreldrunum. Allir þeir sem eru gripnir með eitthvert magn afþreyingarefnis frá Suður-Kóreu, Bandaríkjunum eða Japan eiga yfir höfði sér dauðarefsingu. Þeir sem eru staðnir að áhorfi eru dæmdir í 15 ára vist í fangabúðum.  

Kim lætur ekki nægja að refsa fólki harðlega fyrir að horfa eða hlusta því leiðtogar ungliðahreyfinga eru hvattir til að brjóta á bak aftur allar tilraunir ungmenna til lögbrota. Svo sem andstyggilega einstaklingshyggjuhegðun, ósæmilega hárgreiðslu og fatnað sem og erlend tökuorð, segir í umfjöllun BBC þar sem rætt er við fólk sem hefur flúið land og lýsir harðræðinu í Norður-Kóreu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert