Spánn opnar landamæri og rýmkar reglur

Spánn býst við að taka á móti 45 milljónum ferðamanna …
Spánn býst við að taka á móti 45 milljónum ferðamanna 2021. AFP

Spánn hefur rýmkað regluverk sitt á landamærunum. Landið er nú opið bólusettum ferðamönnum og gerðar hafa verið breytingar á kröfum til þeirra sem ekki hafa fengið bólusetningu. Leiðir þetta til þess að hafnir Spánar taka nú á móti erlendum skemmtiferðaskipum, en þær hafa verið lokaðar frá því í marsmánuði síðasta árs.

Ferðaþjónustan er allra mikilvægasta atvinnugreinin á Spáni. Höggið sem geirinn þurfti að þola vegna Covid-heimsfaraldursins, varð til þess að hnignun hagkerfisins þar í landi nam 10,8% árið 2020 og var þar með sú mesta á evru-svæðunum.

Nú hefur Spánn opnað landamæri sín gagnvart bólusettum ferðamönnum. Þeir sem ekki eru bólusettir þurfa ekki lengur að sýna fram á vottorð um neikvæða PCR-niðurstöðu sem fengin var 72 klukkustundum fyrir brottför, heldur dugar nú ódýrari mótefnamæling ef hún hefur verið framkvæmd 48 klukkustundum fyrir brottför.

Spánverjar eru bjartsýnir á að ferðamannaiðnaðurinn muni taka við sér í sumar og hafa áætlað að fjöldi ferðamanna verði í kringum 45 milljónir við lok árs. Í apríl höfðu þeir ekki tekið á móti nema 1,8 milljónum ferðamanna en fólk innan ferðamannaiðnaðarins er sannfært um að talan snarhækki á komandi mánuðum. Er þetta í takt við aukið hlutfall bólusettra einstaklinga í Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert