Fjölskylda verði látin laus eftir 3 ára dvöl á Jólaeyjum

Tharnicaa (t.h.) ásamt systur sinni Kopika á Jólaeyjum.
Tharnicaa (t.h.) ásamt systur sinni Kopika á Jólaeyjum. Ljósmynd/ Home To Bilo

Kallað hefur verið eftir því að áströlsk yfirvöld láti lausa úr haldi fjölskyldu flóttamanna á Jólaeyjum eftir að þriggja ára barn var flutt til meginlandsins vegna veikinda. 

Tharnicaa Murugappan var flutt á sjúkrahús í Perth eftir veikindi síðustu daga. Mannréttindafrömuðir segja að Tharnicaa hafi verið greind með blóðsýkingu og lungnabólgu og gagnrýna hve langan tíma það tók að koma henni undir læknishendur. Tharnicaa hafði verið veik í um tíu daga áður en hún var flutt á sjúkrahús á Jólaeyjum og í kjölfarið til Perth. 

Móðir hennar, Priya Nadesalingdram, segist hafa endurtekið beðið um sýklalyf og læknismeðferð við veikindum dóttur sinnar en ekki fengið annað en væg verkjalyf. Landamærayfirvöld í Ástralíu hafa tekið fyrir ásakanirnar og segja að Tharnicaa hafi verið veitt þjónusta að læknisráði. 

Fjölskyldunni hefur verið haldið í flóttamannamiðstöð á Jólaeyjum í rúm þrjú ár. Foreldrar Tharnicaa eru flóttamenn frá Sri Lanka sem komu til Ástralíu sjóleiðis fyrir tæpum áratug í leit að hæli. Þau komu sér fyrir í bænum Biloela í Queensland þar sem dætur þeirra tvær fæddust, en eldri systir Tharnicaa, Kopika, er sex ára. 

Ítrekuð veikindi 

Yfirvöld fluttu fjölskylduna úr landi árið 2018. Vinir fjölskyldunnar í Biloela börðust fyrir því að hún fengi áfram að dvelja í bænum og fór málið í gegnum öll dómstig Ástralíu. Niðurstaða dómstóla var sú að ekki væri hægt að flytja fjölskylduna úr landi og brugðust yfirvöld við með því að senda hana til Jólaeyja. Fjölskyldan segir að vera hennar á Jólaeyjum hafi haft umtalsverð áhrif á heilsu Tharnicaa. Sem ungabarn fékk hún ítrekaðar sýkingar vegna d-vítamínsskorts og tveggja ára þurfti að fjarlægja allar barnatennur hennar sem voru farnar að rotna sökum næringarskorts. 

Fram kemur á BBC að áströlsk yfirvöld hafi tilkynnt á þriðjudag að til skoðunar væri að flytja fjölskylduna til Nýja-Sjálands eða Bandaríkjanna. Lögmaður fjölskyldunnar, Carina Ford, segir að hvorki hafi verið rætt við hana né fjölskylduna um ráðagerðina. Ford segir það enn vera vilja fjölskyldunnar að snúa aftur til Biloela. Innanríkisráðherra Ástralíu Karen Andrews hefur beina heimild til þess að veita fjölskyldunni hæli. 

Í flóttamannastefnu Ástralíu felst meðal annars að engum sem kemur til landsins á báti verði veitt hæli. Þá er heimilt að halda ólöglegum hælisleitendum og innflytjendum ótímabundið í varðhaldsstöðum úti fyrir meginlandinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert