Yfirstéttarkonan sem gerðist nunna

Systir Mary Joseph.
Systir Mary Joseph. Ljósmynd/Mark Miller

92 ára gömul bandarísk nunna, sem hét þagmælsku, einsemd og fátækt, lést nýverið í klaustrinu þar sem hún eyddi síðustu þremur áratugum ævi sinnar. Líf systur Mary Joseph var síður en svo hefðbundið. 

Áður en hún helgaði sig lífi bænar var hún þekkt sem Ann Russell Miller, auðug yfirstéttarkona frá San Francisco sem hélt íburðarmikil teiti, var tíður gestur í San Francisco-óperunni og 10 barna móðir. 

Ann fæddist árið 1928 og átti sér þann draum í æsku að verða nunna. Þegar hún var tvítug hitti hún aftur á móti Richard Miller og varð ástfangin. Þau giftu sig fljótlega og Richard varð síðar varaforstjóri Pacific Gas and Electric-veitustofnunarinnar. 

„Þegar hún var 27 ára átti hún fimm börn,“ skrifar sonur hennar Mark Miller. „Hún átti eftir að eignast fimm í viðbót, körfuboltalið af hvoru kyni. Skipulagt foreldrahlutverk kallaði hún það,“ skrifar Mark. 

Ann Russell Miller.
Ann Russell Miller. Ljósmynd/Mark Miller

„Hún átti milljón og einn vin. Hún reykti, hún drakk, hún spilaði. Hún gerðist kafari. Hún keyrði svo hratt og kæruleysislega að fólk fór út úr bifreiðinni með sáran fót eftir að hafa hemlað á ímyndaða bremsu. Hún hætti að reykja, drekka áfengi og koffín allt á sama degi og tókst einhvern vegin að fremja ekki manndráp í kjölfarið,“ skrifar Mark um móður sína.

Ann og Richard ólu upp börnin tíu í níu herbergja stórhýsi með útsýni yfir San Francisco-flóa og var Ann þekkt fyrir að draga vini sína í skíðaferðir með skömmum fyrirvara, fara í snekkjuferðir í Miðjarðarhafinu og í fornleifagröft á framandi slóðum. Á einum tímapunkti sat hún í stjórnum 22 samtaka og safnaði fjármagni fyrir framúrskarandi háskólanema, heimilislausa og kaþólsku kirkjuna. 

Ljósmynd/Mark Miller

Richard lést úr krabbameini árið 1984 og Ann ákvað þá að fylgja eftir fyrri draumi sínum um að gerast nunna í einni ströngustu systrareglu kaþólsku kirkjunnar. Fimm árum síðar gaf hún allar eigur sínar og gerðist systir í reglu Lady of Mount Carmel í Des Plaines í Illinois-ríki. 

Karmelsystrareglan er einangruð meinlætaregla. Systurnar lifa að megninu til í þögn og yfirgefa ekki klaustrið nema í neyðartilvikum. Þær tala aðeins ef það er nauðsynlegt og verja mestum tíma sínum við bænir og hugleiðslu. 

„Hún var óvenjuleg nunna,“ skrifar Mark um móður sína. „Hún söng ekki mjög vel, hún var sífellt sein til þess að sinna skyldum sínum og henti prikum til hunda sem var ekki leyfilegt. Ég hef aðeins séð hana tvisvar á síðustu 33 árum síðan hún gekk í klaustrið og þegar þú heimsækir má ekki faðmast eða snertast. Tvöfaldir stálrimlar skilja þig að,“ skrifar Mark. 

Börn Ann Russell Miller í aldursröð frá hægri.
Börn Ann Russell Miller í aldursröð frá hægri. Ljósmynd/Mark Miller

Ann átti 28 barnabörn og hafði aldrei hitt sum þeirra. Þá átti hún á annan tug barnabarnabarna, en hún hafði aldrei hitt neitt þeirra. Hún svaf á viðarplanka á þunnri dýnu í litlum klefa og klæddist fábrotnum nunnuklæðum og sandölum gjörólíkum þeim silkisólhlífum, Hermes-klútum og Versace-skóm sem hún hafði klæðst í fyrra lífi. 

Á 61 árs afmælisdegi sínum hélt Ann 800 manna veislu á Hilton-hótelinu í San Francisco til að kveðja vini sína og fjölskyldu. Veislugestir snæddu dýrt sjávarfang, hlustuðu á strengjasveit og Ann á að hafa verið með blómakrans á höfði og helíumblöðru bundna við sig sem á stóð „hér er ég“ svo að gestir gætu fundið hana og kvatt. 

Ann og Richard Miller.
Ann og Richard Miller. Ljósmynd/Mark Miller

Hún sagði við veislugesti að hún hefði helgað fyrstu 30 ár ævi sinnar sjálfri sér, næstu þrjátíu ár börnum sínum og að síðasta þriðjung ævinnar ætlaði hún að helga Guði. Daginn eftir flaug hún til Chicago og gekk í klaustur Karmelsystra sem systir Mary Joseph. 

„Samband okkar var flókið. Hún fæddist á þriðja áratugnum og dó á þriðja áratug næstu aldar. Hún var Ann Russell Miller, systir Mary Joseph af þrenningunni,“ skrifar Mark og bætir við: „Ég vona hún skili kveðju til pabba frá mér.“

mbl.is