Biden varar Rússa við

Joe Biden á leið í forsetaflugvélina í gær á leið …
Joe Biden á leið í forsetaflugvélina í gær á leið til Bretlands. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti, sem er á sínu fyrsta opinbera ferðalagi erlendis, hefur varað Rússa við „skjótum og miklum afleiðingum“ ef þeir grípa til „skaðlegra aðgerða“.

Hann ætlar sér að styrkja tengslin við bandamenn Bandaríkjanna í kjölfar erfiðra samskipta á meðan Donald Trump var forseti.

Boris Johnson.
Boris Johnson. AFP

Biden kom til Bretlands í gær. Þar mun hann hitta forsætisráðherrann Boris Johnson og munu þeir ræða um svokallaðan Atlantshafssamning. Samningurinn verður nútíma útgáfa af samningi sem Winston Churchill og Franklin Roosevelt undirrituðu árið 1941. Á meðal helstu atriða verða loftslags- og öryggismál.

Að sögn Lauru Kuenssberg hjá BBC ætla Biden og Johnson að bæta samskipti ríkjanna frá því sem það var á Trump-árunum og eftir faraldurinn af völdum kórónuveirunnar.

Í átta daga heimsókn í Evrópu mun Biden hitta Elísabetu Bretlandsdrottningu í Windsor-kastala, sækja leiðtogafund G7-ríkjanna og mæta á sína fyrstu NATO-ráðstefnu eftir að hann tók við embætti.

Í lok ferðarinnar mun Biden hitta Vladimír Pútín Rússlandsforseta í Genf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert