Hæstiréttur sker úr um Copa America

Copa America er keppni Suður-Ameríkuþjóða í fótboltanum.
Copa America er keppni Suður-Ameríkuþjóða í fótboltanum. AFP

Hæstiréttur í Brasilíu tekur ákvörðun í kvöld um hvort Suður-Ameríkukeppnin í knattspyrnu karla, Copa America, fái að fara fram í landinu. Mótið á að hefjast eftir þrjá daga.

Dómarar við Hæstarétt í Brasilíu hafa til miðnættis að brasilískum tíma, eða kl. 03:00 að íslenskum tíma, til þess að komast að niðurstöðu, en þrír þeirra hafa þegar lýst því yfir að þeir telji að mótið eigi að fara fram. Tveir stjórnarandstöðuflokkar og stéttarfélag þar ytra kærðu málið til Hæstaréttar, en þeir telja að áhættan á annarri bylgju í faraldrinum sem gæti sprottið upp vegna mótsins sé næg ástæða til þess að blása mótið af.

Suður-Ameríkukeppnin átti upphaflega að fara fram á síðasta ári, en var slegið á frest vegna faraldursins. Mótið átti fyrst að fara fram í Argentínu og síðar Kólumbíu, en hætt var við þau áform á síðustu stundu þar sem þjóðirnar sáu sér ekki fært að halda mótið. Í tilfelli Argentínu var það vegna faraldursins, en óeirðir vegna stjórnmálaástandsins komu í veg fyrir að Kólumbíumenn gætu tekið að sér gestgjafahlutverkið.  

Engin lausn var í sjónmáli í síðustu viku þar til Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu,  bauðst til þess að halda mótið. Sú ákvörðun þótti hins vegar afar umdeild, þar sem kórónuveirufaraldurinn hefur leikið landið grátt, en Bandaríkin eru eina ríkið þar sem fleiri dauðsföll hafa orðið af völdum Covid-19. 

Faraldursfræðingar þar ytra hafa varað Brasilíu, sem enn stendur í ströngu við faraldurinn, við að stórmót í fótbolta gæti bætt olíu á eldinn er varðar nýja bylgju þar í landi. Stjórnvöld segja hins vegar að fyllsta öryggis verði gætt, en leikið verður m.a. fyrir luktum dyrum. 

Jair Bolsonaro.
Jair Bolsonaro. AFP
mbl.is