McDonalds-stöðum lokað vegna K-Pop æðis

Strákasveitin BTS.
Strákasveitin BTS. AFP

Hvað gerist þegar stærsta skyndibitakeðja heims og vinsælasta strákasveit dagsins í dag fara í samstarfsverkefni? Svo virðist sem svarið við þeirri spurningu sé: Algjör óreiða. 

Það var hið minnsta upplifun fjölmargra útibúa McDonalds í Indónesíu, sem þurftu að loka stöðum sínum vegna gríðarlegrar eftirspurnar eftir nýrri BTS-máltíð, en fyrir þá sem ekki þekkja er BTS kóresk strákasveit sem er vinsælasta hljómsveit heims um þessar mundir. 

„Við höfum lokað tímabundið fjórum af sex McDonalds stöðum hérna í Semarang í nokkra daga. Við viljum ekki að Semarang verði Covid-19 pottur aftur,“ sagði Fajar Purwoto, yfirmaður öryggismála í borginni.

Sló hvert metið á fætur öðru

BTS-máltíðin samanstendur af 10 kjúklinganöggum, frönskum kartöflum, Coca Cola og eldpipars-sósupakka. Eftirspurnin eftir þessari annars fábrotnu máltíð skýrist af gríðarlegum vinsældum BTS, sérstaklega í Asíu. Síðasta smáskífa hljómsveitarinnar, Butter, sló hvert metið á fætur öðru í spilunum og síðasta plata hljómsveitarinnar var mest selda plata ársins 2020. 

Samstarf BTS við McDonalds nær til 49 landa. Það fór fyrst af stað í Bandaríkjunum í maí þar sem fór vel af stað. Umferð um bandaríska McDonalds-staði jókst um 12% fyrstu viku samstarfsins þar í landi. 

Vegna kórónuveirunnar hafa fjölmargir í Indónesíu nýtt sér sendingaþjónustu til þess að næla sér í BTS-máltíðina. Í Jakarta þurftu starfsmenn sendingaþjónusta að bíða í yfir tvær klukkustundir eftir máltíðunum. Lögreglan í Jakarta segir að 32 McDonalds stöðum í höfuðborginni hafi verið lokað tímabundið. 

Sendlar reyna að fá BTS-máltíðir McDonalds.
Sendlar reyna að fá BTS-máltíðir McDonalds. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert